Körfubolti

Þrír leikstjórnendur Dallas-liðsins allir fæddir á sama degi á sama ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José Juan Barea, Deron Williams og Raymond Felton.
José Juan Barea, Deron Williams og Raymond Felton. Vísir/Getty
NBA-liðið Dallas Mavericks er búið að semja við leikstjórnandann Deron Williams sem hafði áður fengið sig lausan frá Brooklyn Nets. Koma Williams til Dallas býr til skemmtilega og nær örugglega einstaka staðreynd.

Þetta þýðir nefnilega að þrír leikstjórnendur Dallas liðsins í dag eru allir fæddir á sama degi og halda allir upp á 32 ára afmælið sitt næsta sumar.

Deron Williams fæddist 26. júní 1984 í Parkersburg í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum.

José Juan Barea þekktur sem JJ Barea fæddist 26. júní 1984 í Mayagüez á Púertó Ríkó.

Raymond Felton fæddist 26. júní 1984 í Marion í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum.

Deron Williams var með 13,0 stig og 6,6 stoðsendingar að meðaltali með Brooklyn Nets á síðustu leiktíð. Þetta verður ellefta tímabilið hans í NBA-deildinni. Deron Williams gerði tveggja ára samning við félagið en hann spilaði með menntaskólaliði á Dallas-svæðinu áður en hann fór í University of Illinois.

Raymond Felton kom til Dallas frá New York Knicks árið 2014 en hann var með 3,7 stig og 1,4 stoðsendingu að meðaltali á síðasta tímabili. Hann er á sínu síðasta ári af fjögurra ára samningi.

JJ Barea spilaði með Dallas Mavericks í fyrra og einnig á árunum 2006 til 2011 en hann varð NBA-meistari með liðinu 2011. Barea var með 7,5 stig og 3,4 stoðsendingar að meðaltali á síðasta tímabili.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×