Körfubolti

Barea og Matthews græddu mörg hundruð milljónir á því að Jordan hætti við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
J.J. Barea.
J.J. Barea. Vísir/EPA
NBA-körfuboltaliðið Dallas Mavericks hefur gert nýjan samning við leikstjórnandann J.J. Barea en þessi skemmtilegi leikmaður frá Púertó Ríkó græddi mikið á öllu klúðrinu í kringum DeAndre Jordan og hann var ekki sá eini.

DeAndre Jordan var búinn að segjast ætla að skrifa undir risasamning við Dallas Mavericks en hætti svo við og samdi frekar aftur við Los Angeles Clippers.

J.J. Barea ætlaði alltaf að semja aftur við Dallas Mavericks en í stað þess að fá 5,7 milljónir dollara fyrir tvö ár, eins og hann átti að fá þegar DeAndre Jordan var á leiðinni til Texas, fékk hann 16 milljónir dollara fyrir fjögurra ára samning.

Dallas Mavericks átti eftir mikið pláss undir launaþakinu þar sem að DeAndre Jordan sveik Mark Cuban og hans menn og Púertó Ríkó maðurinn græddi mörg hundruð milljónir íslenskra króna á því.

J.J. Barea var ekki reyndar eini leikmaður Dallas sem græddi á U-beygju DeAndre Jordan því það gerði einnig Wesley Matthews. Fjögurra ára samningur hans hækkaði um 13 milljónir dollara eftir að ljóst var að Jordan kæmi ekki.

Wesley Matthews fékk á endanum 70 milljónir dollara fyrir fjögurra ára samning í stað þess að fá 57 milljónir dollara eins og hann átti að fá með því að spila við hlið DeAndre Jordan.

J.J. Barea er 31 árs gamall og varð NBA-meistari með Dallas Mavericks árið 2011. Hann yfirgaf félagið í kjölfarið og fékk samning hjá Minnesota Timberwolves. Barea kom síðan aftur til Dallas á síðasta tímabili.

Barea var með 7,5 stig og 3,4 stoðsendingar að meðaltali fyrir Dallas á síðasta tímabili og passaði líka vel upp á boltann því hann átti 3,78 stoðsendingar á móti hverjum töpuðum bolta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×