Þetta litla dæmi lýsir vel skosku hljómsveitinni sem virðist hafa það viðhorf til lífsins að þess skuli njóta, brosandi og hafa gaman. Þeir tónleikagestir sem töldu sig hafa eitthvað fram að færa á dansgólfinu voru dregnir á svið og næsta lag tók við.
Meðal dansara á sviðinu var grínistinn Jóhann Alfreð Kristinsson úr Mið-Íslandi sem hafði lítið á móti því að dansa með skosku átrúnaðargoðunum. Virtist svo vel fara á með Jóa og Stevie Jackson, öðrum söngvara og gítarleikara sveitarinnar, að þeir virtust sammælast um að reykja saman eftir tónleika. Hvort af því varð verður að koma í ljós síðar.
Að neðan má sjá Jóhann Alfreð stíga dansinn á sviðinu í gær.
Skosku gleðigjafarnir, sem hafa spilað saman frá 1996, sóttu Ísland heim sumarið 2006 og spiluðu með þriggja daga millibili á Nasa í Reykjavík og á Bræðslunni á Borgarfirði Eystra. Sú heimsókn fór vel ofan í Íslendinga og virtust tónleikagestir í gær skemmta sér vel.
Íslensk strengjasveit skipuð Ingrid Karlsdóttur, Laufey Jensdóttur, Guðrúnu Hrund Harðardóttur, Eiríki Rafni Stefánssin og Charlie Cross spilaði með á tónleikunum í gær. Úr varð því ellefu manna stórsveit en fyrir eru sex meðlimir skosku sveitarinnar. Sveitin hefur afkastað miklu á tuttugu ára ferli og því ljóst að unnendur myndu aðeins fá að heyra brot af slögurum sveitarinnar.
Sjáðu einnig:Iggy Pop 68 ára reif sig úr að ofan
Meðal laga sem sveitin tók voru I Didn't See it Coming, I'm a Cuckoo, If You Find Yourself Caught in Love og The Boy with the Arab Strap. Stemmningin náði líklega hápunkti í síðastnefnda laginu sem er eitt þeirra allra frægasta og vinsælasta.

Stuart Murdoch og félagar sendu fólki út í sal afmæliskveðju og spilaði Stevie afmælislagið fyrir einn tónleikagesta við góðar undirtektir. Þá rifjaði Stuart um heimsókn þeirra til Íslands fyrir níu árum og lofaði land og þjóð. Benti hann á hina sturluðu staðreynd, að hans mati, að úti væri bjart þótt komið væri vel fram yfir miðnætti.
Við það tilefni rifjaðist upp fyrir honum göngutúr hans um miðborg Reykjavíkur sumarið 2006, að loknum tónleikum sveitarinnar, þar sem bærinn iðaði af lífi hvort sem var á skemmtistöðum eða í svefnherbergjum íbúa bæjarins. Þannig hefði hann heyrt kynlífsstunur nánast í hvert skipti sem hann gekk framhjá húsi í miðbænum með opinn glugga. Greinilegt væri að fólk kynni að njóta lífsins á Íslandi á sumarin.