Svo virðist sem Grikkir hafi flestir kosið gegn aðhaldsaðgerðum í skiptum fyrir frekari fjárhagsaðstoð. Verði það niðurstaðan á þjóðin í hættu á því að verða vísað úr evrusamstarfinu. Þetta var einnig niðurstaða síðustu skoðanakannana. Kjörstöðum hefur verið lokað en fyrstu niðurstöður koma ekki fyrr en klukkan sex á íslenskum tíma.
Sex af stærstu sjónvarpsstöðvum hafa spáð því að niðurstaðan verði „nei“. Þetta kemur fram á SKY news.
Þjóðaratkvæðagreiðslan varðar tillögur kröfuhafa Grikklands en stjórnvöld höfðu hafnað þeim. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefur látið hafa eftir sér að áætlun kröfuhafanna væri móðgandi og fæli í sér óbærilegar aðhaldsaðgerðir. Hann hvatti þjóðina af þessum ástæðum því til að hafna tillögunum. Telur hann að Grikkir eigi ekki á hættu á að vera vísað úr evrusamstarfinu þrátt fyrir að niðurstaðan verði að hafna tillögunum.
„Atkvæðagreiðslan á sunnudag hefur ekkert með veru okkar í evrusamstarfinu að gera,“ sagði Tsipras í ávarpi sínu. „Enginn getur dregið það í efa að við verðum þar áfram.“
Grikkir áttu að endurgreiða neyðarlán sitt frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um mánaðarmót en það tókst ekki eins og þekkt er. Með því varð það fyrsta þróaða hagkerfi sögunnar sem lendir á vanskilaskrá hjá sjóðnum.