Fótbolti

Stjarnan krefst skaðabóta af stuðningsmanni Lech Poznan | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aðalmeðferð í máli Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn Marek Bogdan Czeski, stuðningsmanni pólska liðsins Lech Poznan, fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.

Czeski hljóp í leyfisleysi inn á völl Stjörnnnar í Garðabæ þegar liðin mættust í undankeppni Evrópudeildar UEFA í fyrra. Vegna þessa var knattspyrnudeild Stjörnunnar sektuð um 1,3 milljón króna af Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA.

Samkvæmt upplýsingum sem koma fram á Twitter-síðu Stjörnunnar játar Czeski brot sitt og segist hafa ákveðið að nýta sér brotalamir í öryggisgæslu Stjörnunnar. Czeski er 35 ára gamall og búsettur í Hafnarfirði.

Knattspyrnudeild Stjörnunnar kærði Czeski til lögreglu sem ákvað að gefa út ákæru og fara með málið fyrir dóm. Czeski er ákærður fyrir húsbrot en málið telst varða 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Krafist er að Czeski greiði tæpar 1,3 milljónir króna í sekt auk vaxta og málskostnaðar.

Verjandi Czeski sagði þó að háttsemi hans hafi ekki verið refsiverð og að því væri ekki hægt að fara fram á bætur fyrir það að hlaupa inn á völlinn, þó það væri í leyfisleysi. Ákæruvaldið hafnaði þeim rökum og sagði ólöglegt að fara inn um ólæstar dyr í leyfisleysi.

Von er á dómsuppkvaðningu síðar í mánuðinum. Hér efst má sjá frétt sem Guðjón Guðmundsson gerði vegna uppákomunnar í leik liðanna síðastliðið sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×