Íslenski boltinn

Ákváðum að taka slaginn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Haukur Ingi var aðstoðarþjálfari Ásmundar Arnarssonar hjá Fylki.
Haukur Ingi var aðstoðarþjálfari Ásmundar Arnarssonar hjá Fylki. vísir/getty
Keflavík réð í gær nýja þjálfara fyrir karlalið félagsins. Haukur Ingi Guðnason og Jóhann Birnir Guðmundsson voru þá ráðnir í stað Kristjáns Guðmundssonar sem var rekinn á fimmtudag.

Þeir gerðu samning við Keflavík út leiktíðina. Báðir eru að þreyta frumraun sína sem aðalþjálfarar en eru þeir tilbúnir í slaginn?

„Það er spurning sem aldrei er hægt að svara fyrr en eftir á,“ segir Haukur Ingi heimspekilega. „Menn verða alltaf að byrja einhvern tímann. Þetta verður bara að koma í ljós.“

Bæði Haukur Ingi og Jóhann Birnir eru synir Keflavíkur og með betri knattspyrnumönnum sem félagið hefur framleitt á síðari árum. Þeir fengu lítinn tíma til þess að hugsa um tilboðið.

„Við ákváðum að taka slaginn þó svo að við hefðum nánast þurft að svara á staðnum. Það var í raun og veru aldrei spurning um að taka slaginn,“ segir þjálfarinn en hann var áður aðstoðarþjálfari Ásmundar Arnarssonar hjá Fylki og tók svo við sem yfirþjálfari yngri flokka hjá félaginu.

„Ég hef lengi haft hug á því að láta á það reyna hvort þetta eigi við mig. Þetta gerist kannski aðeins fyrr en ég átti von á. Ég tel mig líka búa vel þar sem ég var aðstoðarþjálfari í þrjú ár,“ segir framherjinn fyrrverandi og telur að það muni hjálpa sér í nýja starfinu.

„Ég held að margir fyrrverandi leikmenn flaski stundum á því að halda að þeir séu fullmótaðir þjálfarar og hoppa beint út í þjálfun. Ég hef reynslu af því hvernig hlutirnir virka á bak við tjöldin en það gerist margt þar sem maður hafði ekki hugmynd um sem leikmaður.“

Það er verk að vinna hjá þeim félögum að rífa Keflavík upp úr botnsæti Pepsi-deildarinnar en þeir ætla að gera sitt besta.

„Ég er mjög spenntur og held að þetta verði skemmtilegt. Þetta er líka mikill heiður fyrir mig og verður gaman að reyna að snúa gengi liðsins við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×