Íslenski boltinn

Bjarni: Verið að ráðast á okkar bestu leikmenn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bjarni var ekki sáttur.
Bjarni var ekki sáttur. vísir/stefán
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, var eðlilega svekktur með úrslitin á Vodafone-vellinum í kvöld enda sigurhrina hans manna á enda. Valur vann 3-0 sigur á KR.

"Við urðum einfaldlega undir í baráttunni. Það sem fylgir svo þar á eftir er, að sendingar verða lélegar, fyrsta snerting er léleg og við sköpum okkur fá færi," sagði Bjarni.

"Allt er þetta undanfari þess að við verðum undir Valsliðinu í baráttunni og því fór sem fór."

Valsmenn voru mjög harðir frá fyrstu mínútu og straujuðu Pálma Rafn Pálmason niður eftir aðeins 30 sekúndur.

"Þetta er það sem lið eru farin að gera. Þau ráðast á okkar bestu leikmenn og ætla að taka þá út úr leiknum," sagði Bjarni.

"Við höfum lent í þessu í síðustu leikjum. Þetta er ekki skemmtileg taktík og eitthvað sem dómarar þurfa að hugsa um ef þetta er leiðin að komast í gegnum okkur."

"En við verðum bara að taka á móti þessu. Það þýðir ekkert að grenja yfir þessu. Við verðum að vera ofan á í baráttunni ef við ætlum að vinna leiki."

KR-liðið skapaði sér ekki mikið í leiknum sem Bjarni var óánægður með enda liðið mikið með boltann.

"Við vildum fá fleiri fyrirgjafir og betri. Við fjölguðum í framherjastöðunum en Valsliðið er hörkugott og spilaði sterkan varnarleik með Danann fyrir miðju sem bindur þetta saman. Hingað er ekkert létt að koma og við vissum það fyrir leikinn," sagði Bjarni Guðjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×