Íslenski boltinn

„Sætt að þetta gerðist á 91. mínútu“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Eyjakonan Berglind Björg jafnaði metin fyrir Breiðablik.
Eyjakonan Berglind Björg jafnaði metin fyrir Breiðablik. Vísir/ÓskarÓ

„Frábær. Ótrúlega ánægð að við séum að fara á Laugardalsvöll,“ sagði einn markaskorara Breiðabliks, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, eftir dramatískan sigur liðsins á ÍBV í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.

ÍBV var með 0-1 forystu í hálfleik og komst í 0-2 snemma í síðari hálfleik.

„Við byrjuðum þennan leik hrottalega illa, bara mjög ólíkar sjálfum okkur. Við vorum undir á öllum vígstöðum, en svona síðustu mínúturnar fram að hálfleik voru við að vinna okkur aðeins meira inn í leikinn. Við ræddum það svo bara í hálfleik á rólegu nótunum og mættum bara sem við í seinni hálfleik og kláruðum þetta.“

Breiðablik var þó ekki lengi að jafna leikinn í 2-2 og hreinlega óð í færum fram á lokamínúturnar. Endaði það með sigurmarki í uppbótatíma eftir hornspyrnu þegar Barbára Sól skallaði boltann í netið.

„Ég fékk alveg helling af færum, en samt þá voru þær í svo skrítnum stöðum. Þetta voru ekkert dauðafæri hjá okkur en við vorum helvíti nálægt þessu í hvert einasta skipti og ég vissi bara að við myndum klára þetta. Sætt að þetta gerðist á 91. Mínútu,“ sagði Berglind Björg.

Breiðablik er að fara í sinn fimmta úrslitaleik í Mjólkurbikarnum í röð, en liðið hefur tapað þrem úrslitaleikjum í röð. Berglind Björg segir liðið vera komið með nóg af því.

„Við erum að fara taka titilinn í ár, það er bara þannig. Það eru allir komnir með nóg að tapa þessum bikarúrslitaleik sko, þannig að við erum að fara taka þetta í ár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×