Körfubolti

NBA: Annar stórsigurinn í röð og Clippers er komið í 3-1 | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
DeAndre Jordan fagnar í nótt.
DeAndre Jordan fagnar í nótt. Vísir/Getty
Los Angeles Clippers er komið í frábæra stöðu í undanúrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta eftir 33 stiga sigri á Houston Rockets í fjórða leik liðanna í nótt. Clippers er 3-1 yfir og vantar bara einn sigur í viðbót til þess að komast áfram.

Þetta var annar stórsigur Los Angeles Clippers í röð í einvíginu en liðið vann heimaleikina sína með samtals 58 stigum. Næsti leikur er í Houston og þar getur Clippers komist áfram í úrslit Vesturdeildarinnar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Miðherjinn DeAndre Jordan var heldur betur í sviðsljósinu en hann endaði leikinn með 26 stig og 17 fráköst. Jordan er ekki góð vítaskytta en upplegg Houston-liðsins var að brjóta stanslaust á honum og senda hann á vítalínuna.

Þessi taktík gekk þó ekki upp á endanum. Jordan hitti reyndar aðeins úr 14 af 34 vítaskotum en hann setti nýtt NBA-met með því að taka 28 víti í fyrri hálfleiknum.

Blake Griffin skoraði 21 stig fyrir Clippers-liðið, J.J. Redick var með 18 stig og Chris Paul bætti við 15 stigum og 12 stoðsendingum. James Harden var með 21 stig fyrir Houston, Trevor Ariza skoraði 18 stig og Jason Terry var með 16 stig.

„Þeir gjörsigruðu okkur," sagði Kevin McHale, þjálfari Houston Rockets eftir leikinn en hann var ekki vinsæll fyrir að beita aðferðinni að senda DeAndre Jordan aftur og aftur á vítalínuna.

James Harden skaut meira segja á það:  „Ég er persónulega ekki hrifinn af svona en þjálfarar hafa víst mismundandi sýn á þetta," sagði Harden.

„Þetta stuðaði okkur í byrjun en eftir það vorum við í góðu lagi," sagði Doc Rivers, þjálfari Los Angeles Clippers um taktík Houston-liðsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×