Innlent

Með kaldari maímánuðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Landsmeðalhiti í byggð var 0,36 stig í gær, sem er 4,4 hitastigum undir meðaltali síðustu tíu ára.
Landsmeðalhiti í byggð var 0,36 stig í gær, sem er 4,4 hitastigum undir meðaltali síðustu tíu ára. Vísir/Getty/Aðalsteinn
Hvert kuldametið virðist falla á fætur öðru og maímánuður fer ekki vel af stað með tilliti til hita. Veður hefur hins vegar að mestu verið milt og sólríkt, hér sunnan til hið minnsta og er spáð að veður muni haldast eins út vikuna. Landsmeðalhiti í byggð var 0,36 stig í gær, sem er 4,4 hitastigum undir meðaltali síðustu tíu ára.

Þar að auki féll landsdægurlágmarksmet í gær þegar hitinn á Brúarjökli fór niður í -18,1 stig.

„Þetta var óvenju vel að verki staðið því þetta er miklu kaldara en gamla metið, -13,8 stig, sem sett var á Hveravöllum 1992. Þetta er þriðja landsdægurlágmarksmetið sem fellur í mánuðinum,“ segir veðurfræðingurinn Trausti Jónsson á bloggsíðunni Hungurdiskar.

Trausti segir að staðan sé nú þannig að á 67 ára listum hafi maí aðeins tvisvar sinnum verið kaldari í Reykjavík, á Akureyri og á Dalatanga.

„Í Reykjavík eru það 1982 og 1979 sem eru kaldari. Lengra í fortíðinni má finna meiri kulda en nú 1943 og á nokkrum árum á 19. öld í Reykjavík - kaldast var þó 1979. Á langa Stykkishólmslistanum er staðan þannig að 18 maímánuðir hafa byrjað kaldari síðustu 170 árin, kaldasta maíbyrjunin var þar 1979.“

Það sem af er mánuðinum hefur verið hlýjast í Surtsey, en meðalhitinn þar er 3,0 stig. Kaldast hefur verið í Sandbúðum á Sprengisandsleið. Þar hefur frostið verið -8,0 að meðaltali.

„Sólskinsstundirnar í Reykjavík mældust 7,1 í dag, nægir ekki alveg til að ná 1. sæti á sólskinslistanum, 0,4 stundum munar á núverandi mánuði og maí 1958. Sáralítið sólskin hefur mælst við Mývatn í mánuðinum, aðeins 17,7 stundir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×