Körfubolti

NBA: Golden State og Atlanta jöfnuðu bæði | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. Vísir/Getty
Þrjú af fjórum undanúrslitaeinvígunum í í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta eru jöfn, 2-2, eftir að bæði Golden State Warriors og Atlanta Hawks unnu leiki sína í nótt.

Stephen Curry, nýkjörinn besti leikmaður NBA-deildarinnar í vetur, var með 33 stig þegar Golden State Warriors vann öruggan 101-84 útisigur á Memphis Grizzlies og jafnaði einvígið í 2-2.

Memphis Grizzlies var búið að vinna tvo leiki í röð í einvíginu og Golden State liðið hafði ekki tapað þremur leikjum í röð á tímabilinu. Leikur númer fimm er á heimavelli Golden State Warriors.

„Í kvöld tókum við skref í átt að því að skilja betur af hvaða krafti og keppnishörku við þurfum að spila þessa leiki. Þetta var það besta hjá okkur í úrslitakeppninni hvað það varðar að spila á fullu allar sekúndur leiksins," sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors eftir leikinn.

„Við gáfum tóninn í fyrsta leikhlutanum og vorum með fótinn á bensínsgjöfinni það sem eftir var leiksins," sagði Stephen Curry sem skoraði 21 af 33 stigum sínum fyrir hálfleik.

Draymond Green var með 16 stig og 10 fráköst hjá Golden State, Klay Thompson skoraði 15 stig, Harrison Barnes var með 12 stig Andre Iguodala skoraði 11 stig.

Marc Gasol skoraði 19 stig og tók 10 fráköst hjá Memphis og Zach Randolph var með 12 stig og 11 fráköst.  

Jeff Teague skoraði 26 stig og gaf 8 stoðsendingar fyrir Atlanta Hawks sem jafnaði sitt einvígi á móti Washington Wizards í 2-2 eftir 106-101 útisigur í nótt. Washington lék áfram án leikstjórnandans síns John Wall en liðið hafði fyrir leikinn í nótt ekki tapað á heimavelli.

Paul Millsap var með 19 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst og Al Horford bætti við 18 stigum og 10 fráköstum. „Svona spilum við og svona höfum við verið að spila allt tímabilið. Ég tel að þetta sé besti leikurinn okkar í seríunni," sagði Paul Millsap eftir leikinn.

Bradley Beal var með 34 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar fyrir Washington og Paul Pierce hitti úr 5 af 7 þriggja stiga skotum og skoraði 22 stig. Pierce gat jafnað metin með þriggja stiga skoti 9,5 sekúndum fyrir leikslok en skotið geigaði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×