Fótbolti

Allegri: Ætluðum að sækja á James og Isco

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allegri heilsar Carlo Anchelotti, stjóra Real Madrid, fyrir leikinn í kvöld.
Allegri heilsar Carlo Anchelotti, stjóra Real Madrid, fyrir leikinn í kvöld. vísir/getty
Massimiliano Allegri, knattspyrnustjóri Juventus, sagði eftir jafntefli ítölsku meistaranna og Real Madrid á Santiago Bernabeu í kvöld að hann hefði kvatt sína menn til að sækja grimmt á miðjumenn Madrídinga, þá James Rodríguez og Isco.

„Ég vissi að leikurinn yrði svona,“ sagði Allegri sem tók við Juventus af Antonio Conte fyrir tímabilið.

„Ég sagði við strákana að við þyrftum að sýna hugrekki og spila góðan fótbolta.

„Isco og James eru ekki sterkustu varnarmennirnir svo ég sagði við mína menn að sækja á þá og láta þá verjast,“ sagði Allegri.

Juventus er þegar orðið ítalskur meistari og komið í úrslitaleik bikarkeppninnar þar í landi. Tímabilið í ár gæti því orðið sögulegt en liðið er aðeins tveimur sigrum frá því að vinna þrennuna.

„Ég er að vinna með stórkostlegum hópi leikmanna. Þetta var frábær undanúrslitarimma þar sem bæði lið áttu sína möguleika,“ sagði Allegri ennfremur, alsæll eftir leikinn, en Juventus mætir Barcelona í úrslitaleiknum 6. júní næstkomandi.

„Við eigum skilið að vera í úrslitum og ætlum að standa okkur vel þar.

„Það er nánast ómögulegt að spila á móti Barcelona en það er eitt að spila tvo leiki við þá, heima og að heiman, eða í einum úrslitaleik. Þar getur allt gerst,“ sagði Allegri að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×