Íslenski boltinn

Heimavöllurinn gefið lítið í fyrstu tveimur umferðum Pepsi-deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leiknir tapaði sínum fyrsta heimaleik í efstu deild á mánudaginn.
Leiknir tapaði sínum fyrsta heimaleik í efstu deild á mánudaginn. vísir/ernir
Heimavöllurinn hefur ekki verið að gefa Pepsi-deildarliðinum mikið í upphafi tímabilsins og svo lítið að tölfræðin segir að útiliðin hafi aldrei staðið sig betur í fyrstu tveimur umferðunum frá því að þriggja stiga reglan var tekin upp 1984.

Útiliðin hafa náð í 69 prósent stiganna og skorað 63 prósent markanna í fyrstu tveimur umferðunum í Pepsi-deild karla í fótbolta. 22 stig hafa farið til útiliðanna í þessum tólf leikjum en heimaliðin hafa „bara“ náð í samtals tíu stig. Fjögur stiganna hafa komið í jafnteflum.

Útilið hafa einu sinni áður náð í 22 stig í fyrstu tveimur umferðunum en það var sumarið 1987 þegar sjö af fyrstu tíu leikjum sumarsins unnust af útiliðunum. Markatalan var þó ekki eins óhagstæð heimaliðunum og í ár vegna þess að annar af sigrunum tveimur var 7-1 sigur Valsmanna á Keflavík á Hlíðarenda.

Útiliðin hafa skorað 19 mörk í þessum tólf leikjum eða átta fleiri en heimaliðin. Útiliðin hafa aldrei skorað fleiri mörk í fyrstu tveimur umferðunum en þau gerðu einnig 19 mörk í fyrstu tólf leikjunum 2013. Markatala hefur aftur á móti aldrei verið hagstæðari fyrir útiliðin á sama tíma síðan þriggja stiga reglan var tekin upp 1984.

Einu liðin sem hafa unnið á heimavelli til þessa í sumar eru Fjölnir (1-0 sigur á ÍBV) og FH (2-0 sigur á Keflavík) en sigrar þeirra komu á móti einu liðum deildarinnar sem hafa ekki náð í stig í fyrstu tveimur umferðunum.

Öll lið hafa spila heimaleik nema Íslandsmeistarar Stjörnunnar sem eru reyndar með fullt hús og hreint mark eftir tvo útileiki. Fjölnir er eina liðið sem hefur bara spilað á heimavelli en Grafar­vogsliðið er með fjögur stig eftir að hafa verið mínútum frá því að vinna annan heimaleikinn í röð í 1-1 jafnteflinu á móti Fylki.

Þriðja umferðin fer öll fram á morgun, sunnudag, en þá mætast: Fylkir-ÍBV (klukkan 17.00), ÍA-Víkingur R., KR-Fjölnir, Stjarnan-Leiknir og Valur-FH (allir klukkan 19.15) og Keflavík-Breiðablik (kl. 20.00). Þar eru fjögur af þeim fimm neðstu á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×