Körfubolti

Meistararnir úr leik eftir æsilegan oddaleik | Sjáðu sigurkörfu CP3

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chris Paul skorar sigurkörfuna í nótt.
Chris Paul skorar sigurkörfuna í nótt. Vísir/Getty
Meistarar San Antonio Spurs eru úr leik í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta eftir að hafa tapað fyrir LA Clippers í oddaleik í nótt, 111-109.

Chris Paul skoraði sigurkörfu leiksins þegar ein sekúnda var eftir. Hann keyrði inn í teig og tók erfitt skot yfir Tim Duncan sem fór ofan í við gríðarlegan fögnuð heimamanna.

Paul náði að hrista af sér meiðsli snemma í leiknum og skoraði 27 í leiknum, þar af átján í síðari hálfleik en þá setti hann niður fjórar afar mikilvægar þriggja stiga körfur.



Tim Duncan var einnig með 27 stig og ellefu fráköst þar að auki. Hann hrósaði Paul eftir leikinn.

„Þetta var gjörsamlega ótrúlegt skot. Ég veit að hann var að spila með smá meiðsli á bakinu en hann náði samt að koma sér í gegnum þetta og taka þetta skot. Við vorum tveir í honum,“ sagði Duncan en Danny Green fylgdi Paul inn í teiginn áður en Duncan steig út gegn honum.



Clippers er nú komið í undanúrslit vesturdeildarinnar í aðeins fjórða skipti frá upphafi en þetta var eina rimman í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem réðst í oddaleik.

Blake Griffin var með þrefalda tvennu fyrir Clippers í leiknum - 24 stig, þrettán fráköst og tíu stoðsendingar. Tony Parker skoraði 20 stig fyrir Spurs.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×