Körfubolti

Russell Westbrook stigakóngur NBA-deildarinnar í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook.
Russell Westbrook. Vísir/AP
Russell Westbrook skoraði 37 stig fyrir Oklahoma City Thunder á lokakvöldi NBA-körfuboltadeildarinnar. Það dugði til sigurs í leiknum og til að tryggja hann sem stigahæsta leikmann NBA-deildarinnar á tímabilinu en OKC komst hinsvegar ekki í úrslitakeppnina.

Russell Westbrook skoraði 28,1 stig að meðaltali en hann hafði betur í hörku keppni á móti James Harden hjá Houston Rockets. Harden skoraði "bara" 16 stig í lokaleik sínum og endaði því með 27,4 stig að meðaltali.

Russell Westbrook setti tvö félagsmet í nótt, fyrst með því að skora 23 stig í fyrsta leikhluta og svo með því að skora 34 stig í fyrri hálfleiknu.

„Hann hefur átt tímabil sem menn munu tala um. Hann er búinn að gera svo mikið á báðum endum vallarins, frákasta, senda boltann, skora, spila vörn. Við höfum ekki séð svona frammistöðu í áratugi," sagði Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City Thunder eftir leikinn.

Russell Westbrook var ekki kátur í leikslok enda hundsvekktur með að hafa misst af úrslitakeppninni í fyrsta sinn síðan á nýliða árinu sínu.  „Þetta þýðir ekkert. Húrra. Ég er heima að horfa á önnur lið spila í úrslitakeppninni," sagði Russell Westbrook um stigakóngstitilinn.

Þetta er aðeins í fimmta sinn frá 1976 þar sem stigahæsti leikmaður deildarinnar er ekki með í úrslitakeppninni en það hafði ekki gerst síðan að Tracy McGrady var stigahæstur 2004.

Oklahoma City Thunder á nú fimm af síðustu sex stigakóngum deildarinnar því Kevin Durant, liðsfélagi Westbrook, var búinn að vera stigahæstur á fjórum af síðustu fimm tímabilum.

Russell Westbrook náði ellefu þrennum á tímabilin og auk þess að skora 28,1 stig í leik þá var hann með 8,6 stoðsendingar, 7,3 fráköst og 2,1 stolinn bola að meðaltali.

Stigahæstir í NBA-deildinni í vetur:

1. Russell Westbrook, Oklahoma City Thunder    28.1

2. James Harden, Houston Rockets    27.4

3. LeBron James, Cleveland Cavaliers    25.3

4. Anthony Davis, New Orleans Pelicans    24.4

5. DeMarcus Cousins, Sacramento Kings    24.1

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×