Innlent

Hviður allt að 55 metrum á sekúndu: „Einum gír ofar en venjulegur stormur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hviður verða allt að 55 metrum á sekúndu á Kjalarnesi, í Hvalfirði, undir Hafnarfjalli og norðan til á Snæfellsnesi.
Hviður verða allt að 55 metrum á sekúndu á Kjalarnesi, í Hvalfirði, undir Hafnarfjalli og norðan til á Snæfellsnesi. vísir/hörður/auðunn
„Veðurspáin er slæm og svona í verri kantinum,“ segir Einar Magnús Einarsson, veðurfræðingur hjá Belgingi, sem var gestur í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun og ræddi veðurhorfurnar á næstu dögum.

Það fer að hvessa ört um hádegisbil suðvestanlands, samkvæmt spá Veðurstofunnar, og fer að snjóa fljótlega upp úr því. Spáð er miklum hvelli sem gengur nokkuð hratt yfir landið. Suðvestanlands er útlit fyrir allt að 28 metrum á sekúndu í eftirmiðdaginn og er vakin athygli á einkar erfiðum akstursskilyrðum á Reykjanesbraut frá klukkan eitt til fimm síðdegis.

„Það má alveg búast við vindhraða yfir 25 metra á sekúndu sem er svona einum gír ofar en venjulegur stormur,“ segir Einar.

Hviður verða allt að 55 metrum á sekúndu á Kjalarnesi, í Hvalfirði, undir Hafnarfjalli og norðan til á Snæfellsnesi. Einnig vestan til undir Eyjafjöllum. Snjóbylur verður á flestum fjallvegum og fyrst um sinn á láglendi líka, á undan skilum óveðurslægðarinnar. Veðrið gengur yfir um kvöldmatarleitið suðvestanlands og síðar í kvöld annarsstaðar.

„Það mun hlýna í skamma stund eftir hádegi, svona fram að kvöldmati. Þá mun aftur kólna með sunnan og suðvestanátt og éljagangi. Þá mun sennilega draga nokkuð úr vindhraða. Versta veðrið verður frá Eyjafjöllum alveg að Snæfellsnesi.“

Einar segir veturinn hafa verið mjög einkennandi fyrir veðurfar á Íslandi.

„Ef það er eitthvað sem er einkennandi fyrir veður á Íslandi, þá eru það umhleypingar. Núna hefur þetta verið nokkuð slæmt í langan tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×