Vigtun fór fram í hádeginu í dag og náðu allir vigt. Eftir vigtunina skelltu þeir sér á Nandos og fengu sér kærkomna máltíð enda hafa strákarnir borðað lítið sem ekkert síðustu daga.
„Við ætlum á brasilískt steikhús í kvöld og éta yfir okkur af kjöti. Það er venjan að fara í bíó kvöldið fyrir bardagana og við munum halda í þá hefð í kvöld,“segir Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis en hann er með í för.
Birgir Örn Tómasson (2-0) berst um léttvigtartitilinn en hann mætir Gavin Hughes (5-0) í lokabardaga kvöldsins. Bjarki Þór Pálsson hirti sama belti í fyrra en þurfti að láta það af hendi þar sem hann snýr sér að atvinnumennsku í íþróttinni. Birgir Örn getur því haldið beltinu í höndum Mjölnis með sigri.
Kapparnir munu taka því rólega á morgun áður en þeir halda upp í höll um fjögur leitið. Fyrstur á vað er Bjarki Ómarsson og er reiknað með að hann byrji á milli 21 og 22 annað kvöld og þeir Magnús og Birgir einhverju síðar.
Þess má geta að Gunnar Nelson er með í för en hann sér um Snapchat reikning Nova þessa dagana. Þeir sem fylgja Nova á Snapchat undir nafninu novaisland geta skyggnst á bakvið tjöldin og fylgst með ferðum strákanna.
Sjá einnig: Leiðin að búrinu: Magnús Ingi Ingvarsson vs. Tim Barnett
Sjá einnig: Leiðin að búrinu: Birgir Örn Tómasson vs. Gavin Hughes
