Körfubolti

Larry Bird kunni að rífa kjaft

Bird er hér að skóla Wilkins til.
Bird er hér að skóla Wilkins til. vísir/getty
Dominique Wilkins rifjar upp hversu illa Larry Bird fór með hann er Wilkins var nýkominn í NBA-deildina.

„Í fyrsta skipti sem ég spilaði við hann var hann með hendur fyrir aftan bak er ég ætlaði að heilsa honum fyrir leikinn. Ég var bara VÁ og vissi ekki hvernig ég átti að vera," sagði Wilkins.

„Þegar leikurinn var svo að fara af stað segir hann við mig: 'Þú átt ekki heima í þessari deild vinur. Þú getur ekki varist mér'. Ég trúði vart mínum eigin eyrum.

„Svo fengu þeir boltann og ég var að dekka hann. 'Ég veit ekki af hverju þú varst settur í að dekka mig, vinur. Þú ræður ekkert við mig' sagði Bird og setti svo niður þriggja stiga skot. Hann endurtók svo leikinn í næstu sókn."

Wilkins viðurkennir að hafa snöggreiðst yfir þessari meðferð og hann nýtti fyrsta tækifæri til þess að svara fyrir sig.

„Ég var kominn einn gegn honum og það rauk úr mér. Ég ákvað að troða yfir hann af fullum krafti. Það tókst og hann datt aftur fyrir sig. Hann stóð upp og sagði: 'Ég er hrifinn af þér nýliði. Þú ert hugrakkur.' Ég var glaður í sekúndu en þá sagði hann: 'Ég ætla samt að skora 40 stig gegn þér í kvöld.

„Ég hafði samt betur. Hann skoraði bara 39 stig."

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×