Erlent

Bréf Kaylu Jean Mueller til fjölskyldu sinnar: „Ekki hafa áhyggjur af mér“

Atli Ísleifsson skrifar
Kayla Jean Mueller var rænt í Aleppo í ágúst 2013.
Kayla Jean Mueller var rænt í Aleppo í ágúst 2013. Vísir/AFP
Fjölskylda bandaríska hjálparstarfsmannsins Kayla Jean Mueller hefur birt bréf sem hún skrifaði til fjölskyldu sinnar síðasta vor.

Mueller var rænt af liðsmönnum ISIS í Aleppo í ágúst 2013 og er nú látin. Barack Obama Bandaríkjaforseti staðfesti þetta fyrr í dag. Tilkynningin kemur fjórum dögum eftir að talsmenn hryðjuverkasamtakanna fullyrtu að Mueller hefði látist í loftárás Jórdaníuhers.

Að sögn talsmanns Bandaríkjastjórnar fékk fjölskylda Muellers sendar upplýsingar frá gíslatökumönnunum um síðustu helgi. „Þegar upplýsingarnar voru síðar sannreyndar af leyniþjónustunni var dregin sú ályktun að hún væri látin,“ segir Bernadette Meehan, talsmaður Hvíta hússins.

Mueller hélt að landamærum Tyrklands og Sýrlands árið 2012 til að aðstoða fólk á flótta, en var svo rænt í borginni Aleppo í ágústmánuði 2013.

Fjölskylda Kayla Jean Mueller hafði áður lýst því yfir að þau vonuðust til að Kayla væri á lífi, en í dag sendu foreldrar hennar svo frá sér yfirlýsingu um að hún væri látin.

„Við erum miður okkar að þurfa að greina frá því að okkur hafa borist upplýsingar um að Kayla Jean Mueller sé látin. Við erum stolt af því hvaða konu Kayla hafði að geyma og það sem hún gerði á meðan hún var enn á meðal okkar. Hún lifði lífi með tilgang,“ sögðu Carl og Marsha Mueller.

Fengu bréf frá Kaylu

Foreldrar Mueller birtu einnig bréf frá henni sem hún hafði sent með aðstoð fanga sem hafði verið sleppt á síðasta ári. „Ef ykkur berst þetta bréf í hendur þá er mér enn haldið fanginni, en samföngum mínum hefur verið sleppt. Ég hef beðið þá um að hafa samband við ykkur og senda þetta bréf. Ég veit ekki hvað ég á að skrifa. En þið skuluð þó vita að ég er örugg, er ómeidd og við góða heilsu (ég hef raunar þyngst),“ segir í bréfinu.

Mueller segir ennfremur að hún geti einungis skrifað lítið í einu þar sem heimþrá hennar geri það að verkum að hún bresti í grát. „Ég sakna ykkar og líður eins og heill áratugur sé liðinn síðan ég sá ykkur síðast. Ég hef haft mikinn tíma til að hugsa og hef ímyndað mér hvað ég kem til með að gera þegar ég kem aftur heim, fyrstu útileguna okkar, hvernig verður þegar við hittumst á flugvellinum.“

Mueller skrifar einnig að hún vilji ekki að fjölskylda hennar eigi að þurfa að semja um lausn hennar og bendir á fólk sem þau gætu haft samband við. „Enginn okkar hefði trúað því að ég yrði svo lengi í haldi en ég held áfram að berjast á þann hátt sem ég kann. Ég bý enn yfir krafti og mun ekki brotna. Ég mun ekki gefast upp, óháð því hvað þetta tekur langan tíma. Ég veit að þið mynduð vilja að ég væri sterk, og það er nákvæmlega það sem ég er. Ekki hafa áhyggjur af mér, haldið áfram að biðja, og með vilja guðs verðum við brátt saman á ný.“

 

Vísir/AFP

Tengdar fréttir

Bandaríski gíslinn látinn

Kayla Jean Mueller, bandarísk kona sem samtökin Íslamska ríkið hafa haldið gíslingu í Sýrlandi síðustu tvö ár, er látin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×