Handbolti

Dagur óánægður: Taflan lýgur ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins, er kominn aftur til Berlínar þar sem hann mun stýra Füchse Berlin til loka tímabilsins.

Dagur hefur verið þjálfari þýska félagsins síðan 2009 en í sumar, þegar hann var ráðinn landsliðsþjálfari, varð ljóst að núverandi tímabil yrði hans síðasta í þýsku höfuðborginni.

Füchse Berlin, sem vann sinn stærsta sigur í sögu félagsins er það varð þýskur bikarmeistari í fyrra, hefur átt erfitt uppdráttar í ár. Leikmannahópurinn hefur orðið fyrir skakkaföllum vegna tíðra meiðsla auk ýmissa mannabreytinga.

„Taflan lýgur ekki,“ sagði Dagur við þýska fjölmiðla í tilefni þess að liðið spilar sinn fyrsta leik í deildinni í kvöld eftir vetrarfrí. „Við getum ekki verið ánægðir með að vera í tíunda sæti deildarinnar.“

Hann segir að markmiðið sé að komast upp í sæti sem veiti liðinu möguleika á sæti í Evrópukeppni á næsta tímabili - fimmta eða sjötta sæti - auk þess að komast langt í öðrum keppnum.

„Markmið okkar er að komast í tvær „Final Four“-keppnir,“ sagði hann og átti við úrslitahelgarnar í bæði þýsku bikarkeppninni og EHF-bikarkeppninni.

Dagur fær tækifæri í kvöld til að byrja síðari hluta keppnistímabilsins á sigri er liðið tekur á móti Minden, sem er í sextánda sæti deildarinnar, á heimavelli sínum í Berlín. Füchse Berlin er enn án hornamannsins Colja Löffler og varnarmannsins Dennis Spoljaric en liðið samdi á dögunum við línumanninn Evgeni Pevnov sem spilaði síðast með liðinu árið 2013.

Alls voru átta leikmenn í Füchse Berlin með landsliðum sínum á HM í Katar, þar af tveir í þýska landsliðinu. Annar þeirra, Paul Drux, segir að þó svo að menn séu þreyttir eftir mótið stendur vilji allra til að gera betur.

„Hver einasti leikmaður mun gefa 120 prósent,“ sagði Drux. „Við fengum ekki mikinn tíma til að undirbúa okkur en við viljum gera ýmislegt gott gegn Minden.“


Tengdar fréttir

Dagur: Maður fær bara kjánahroll

Dagur Sigurðsson hefur farið vel af stað í starfi sínu sem þjálfari þýska landsliðsins þrátt fyrir miklar annir en hann stendur einnig í ströngu sem þjálfari Füchse Berlin. Hann er spenntur fyrir Íslandsför landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×