Körfubolti

Kevin Hart hættur eftir að 13 ára stelpa fór illa með hann | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Hart er hér að missa Mo'ne Davis framhjá sér.
Kevin Hart er hér að missa Mo'ne Davis framhjá sér. Vísir/Getty
Kevin Hart hefur verið aðalstjarna grínleiks stjörnuhelgar NBA-deildarinnar en þar mætast frægt fólk af báðum kynjum og gamli leikmenn auk annarra boðsgesta.

Kevin Hart er gamanleikari og mikill körfuboltaáhugamaður en sentímetrarnir eru eru ekki alveg að vinna með honum.

Hann hefur samt fjórum sinnum verið valinn besti maður grínleiksins en það eru áhorfendurnir sem fá að velja hann.

Kevin Hart fékk verðlaunin enn einu sinni um síðustu helgi en eftirminnilegast atvikið með honum í leiknum var þó ekki til að auka hróður hans sem körfuboltamanns - allavega ekki sem varnarmanns.

Kevin Hart var að dekka hina þrettán ára gömlu Mo'ne Davis sem er orðin fræg í Bandaríkjunum fyrir frábæra frammistöðu sína í hafnarbolta barnanna.

Mo'ne Davis kann líka ýmislegt fyrir sér í körfuboltanum og því fékk Hart að kynnast frá fyrstu hendi þegar hún fór afar illa með hann í einni sókninni.

Hart er 35 ára gamall og tilkynnti það eftir leikinn að hann myndi ekki spila fleiri leiki á Stjörnuhátíðinni.

"Þessi litla stelpa gerði lítið úr mér í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þetta verður bara verra ef ég kem aftur. Ég vil ekki sjá hvað gerist næst," sagði Hart í viðtali í Jim Rome Show.

Kannski var hann enn ringlaður eftir snúninginn frá Mo'ne Davis en við verðum að bíða og sjá hvort að hann standi við stóru orðin á næsta ári.  

Fyrir þá sem vilja sjá af hverju Kevin Hart sé hættur geta skoðað myndbandið hér fyrir neðan sem er um einvígi hans og Mo'ne Davis.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×