Alþjóðahandboltasambandið hefur nú gefið út lokastöðu liðanna átta sem duttu út úr sextán liða úrslitum á HM í handbolta í Katar.
Íslenska liðið endar í ellefta sæti á heimsmeistaramótinu en aðeins Makedónía og Svíþjóð eru ofar af þeim liðum sem komust ekki lengra en í sextán liða úrslitin.
Íslenska liðið hafnaði því einu sæti ofar en á síðasta heimsmeistaramóti sem var jafnframt fyrsta HM undir stjórn Arons Kristjánssonar.
Þetta er í þriðja sinn sem Ísland endar í 11. sæti HM en það gerðist líka í bæði skiptin sem keppnin hefur farið fram í Frakklandi, 1970 og 2001.
Það eru stigin þrjú í riðlinum á móti liðum sem komust áfram í sextán liða úrslitin sem skila íslenska liðinu í ellefta sætið og ofar en Argentína, Austurríki, Egyptaland, Túnis og Brasilía.
Ísland vann Egyptaland og gerði jafntefli við Frakkland en stigin á móti neðstu tveimur liðunum telja ekki og þar með ekki stórtapið á móti Tékkum.
Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans í austurríska landsliðinu enduðu í 13. sæti á mótinu.
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, sagðist vera stoltur af sínum mönnum fyrir frammistöðuna á HM í handbolta, þó svo að niðurstaðan hafi ekki verið eftir óskum manna.
Hörður Magnússon og Guðjón Guðmundsson tóku það saman í HM-kvöldinu í gær hvernig austurríska landsliðið var hreinlega flautað út út heimsmeistaramótinu þegar liðið tapaði á móti Katar í sextán liða úrslitum HM í handbolta.
"Við vildum gefa þessu liði einn séns á stórmóti og freista þess að ná toppframmistöðu úr þessum leikmönnum,“ sagði Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari eftir að Ísland féll úr leik á HM í Katar í gærkvöldi.