Innlent

Hætta á flughálku

Samúel Karl Ólason skrifar
Hætt er við að flughált verði þar sem snjór er fyrir.
Hætt er við að flughált verði þar sem snjór er fyrir. Vísir/Stefán
Veðurhæð er nú að ná hámarki suðvestanlands, en vindur mun ganga niður að miklu leyti, þegar líður á morguninn. Á láglendi hlánar sunnanlands og einnig síðar í dag, norðan og austanlands. Við það er hætt við að flughált verði á mörgum vegum þar sem þjappaður snjór er fyrir.

Snjóþekja og skafrenningur er á Hellisheiði, Þrengslum og á Sandskeiði. Víða á Suðurlandi er hálka og óveður er undir Eyjafjöllum, á Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi, Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Á flestum vegum Vestanlands er hálka og hálkublettir. Fróðárheiði er ófær, sem og Brattabrekka, en sjóþekja og éljagangur er á Vatnaleið.

Á Vestfjörðum er víðast hálka eða snjóþekja og skafrenningur en þó er þungfært á Ennisháls. Ófært er á Kleifarheiði en lokað á Raknadalshlíð. Snjóþekja og stórhríð er á Hálfdán.

Hálka og snjóþekja er á Norður- og norðausturlandi og víða skafrenningur. Þæfingsfærð er á Hólasandi.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum vegum og hálka er einnig með suðausturströndinni. Talsvert hefur borið á hreindýrum við veg á Suðausturlandi undanfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×