Það voru 13.828 sem sáu bardagann með eigin augum í TD Garden í Boston og halaði UFC-sambandið inn 1,3 milljónum dala í aðgangseyri. Uppselt var á bardagakvöldið.
„Við höfum aldrei selt fleiri miða á UFC-viðburð hér í Boston heldur en núna. Tólf prósent seldra miða voru keyptir í Írlandi. Þetta stóðst mínar væntingar,“ sagði Dana White, forseti UFC, á blaðamannafundi í gærkvöldi sem má sjá hér að neðan.
Conor McGregor mætti aðeins of seint á fundinn en fór á kostum eins og svo oft áður þegar einhver réttir honum hljóðnema.
„Mér fannst þetta fara eins og ég lagði upp með. Ég ætlaði að klára hann á tveimur mínútum en síðan vildi ég bara njóta. Það var uppselt hérna og metaðsókn þrátt fyrir að það væri verið að spila í ameríska fótboltanum,“ sagði Írinn á blaðamannafundinum og sötraði rándýrt víski.
„Það er hefð fyrir því að ég afhöfði menn og færi herra White það eftir bardagann. Eftir það ræðum við viðskipti og nú stefnum við á Vegas þar sem ég mun afhausa annan mann.“

„Fyrir mér er þetta ekkert grínt. Ég sagðist ætla að drepa alla og þurrka út deildina og nú er bara einn maður eftir,“ sagði McGregor.
Héldu kannski að ég væri rómantískur
Eini maðurinn sem er eftir er heimsmeistarin Jose Aldo frá Brasilíu, en hann var mættur á bardagann í gær. Eftir að MGregor var búinn að ganga frá Siver stökk Írinn yfir búrið og gerði sig líklegan til að keyra í Aldo.
„Ég sá bara mjóa brasilíska hausinn á honum. Þeir héldu að ég væri að fara faðma kærustuna mína. Ég veit ekki hvort þeir hafi haldið að ég væri svona rómantískur - ég var bara að fara að drepa þennan litla Brasilíumann,“ sagði Conor McGregor.
Bardagann í lýsingu Péturs Marinó Jónssonar og Gunnars Nelson má sjá hér að neðan.