Körfubolti

Chicago á skriði í NBA-deildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jimmy Butler í leiknum í nótt.
Jimmy Butler í leiknum í nótt. Vísir/Getty
Chicago vann í nótt sigur á Denver, 106-101, í NBA-deildinni í körfubolta en aðeins tveir leikir fóru þá fram.

Þetta var ellefti sigur Chicago í síðustu þrettán leikjum liðsins en Jimmy Butler var stigahæstur í liðinu með 26 stig í nótt. Pau Gasol og Derrick Rose voru með sautján stig hvor en sá síðarnefndi skoraði þrettán stig í fjórða leikhluta.

Rose, sem var valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar árið 2011, klikkaði reyndar á fyrstu átta skotum sínum í leiknum og var stigalaus eftir fyrri hálfleik. Hann komst þó í gang undir lokin og var óstöðvandi. Gasol tók einnig níu fráköst í leiknum og varði níu skot sem er persónulegt met.

Wilson Chandler skoraði 22 stig fyrir Denver sem hefur unnið aðeins fjóra af 16 leikjum sínum á útivelli í vetur.

Sacramento vann Minnesota, 110-107, en síðarnefnda liðið tapaði þar með sínum tíunda leik í röð. Rudy Gay var með 21 stig og DeMarcus Cousins nítján stig og sjö fráköst en hvorugur náði þó að klára leikinn vegna villuvandræða.

Andrew Wiggins var með 27 stig fyrir Minnesota og níu fráköst þar að auki og fékk liðið tækifæri til að jafna metin með síðasta skoti leiksins en Troy Daniels brást þá bogalistin.

Úrslit næturinnar:

Chicago - Denver 106-101

Minnesota - Sacramento 107-110

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×