Tólf létu lífið í árásinni, þar á meðal ritstjóri blaðsins og fjórir teiknarar. Lögreglan leitar enn árásarmannanna þriggja. Mennirnir flúðu af vettvangi á svörtum Citroen bíl og rændu öðrum bíl skömmu síðar og skipuðu ökumanninum að yfirgefa bílinn. Enn hefur enginn lýst yfir ábyrgð á árásinni en tímaritið hefur á undanförnum árum birt fjölmargar skopmyndir af Múhameð spámanni og leiðtoga ISIS samtakanna en talið er að árásin tengist þessum myndbirtingum. Árásarmennirnir gengu inn á ritstjórnarfund tímaritsins í morgun og kölluðu upp nöfn þeirra sem síðan voru skotnir.
Myndbönd sem hafa verið birt sýna mennina hrópa vígaorð og lofa Múhameð spámann.
Þjóðarleiðtogar út um heim hafa fordæmt árásina og segja hana árás á tjáningarfrelsi og lýðræði, þar á meðal David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, Angela Merkel kanslari Þýskalands og Barack Obama Bandaríkjaforseti.