Lífið

Matseðill hannaður fyrir húð, hjarta og heila

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Embla og Auður Ösp gefa gestum veitingastaðarins SATT tækifæri til að panta mat fyrir sérstaka líkamsparta.
Embla og Auður Ösp gefa gestum veitingastaðarins SATT tækifæri til að panta mat fyrir sérstaka líkamsparta. Vísir/Pjetur
„Maður á að hugsa meira um mat sem áhrifavald á líkamann,“ segir hönnuðurinn Embla Vigfúsdóttir, sem ásamt kollega sínum, Auði Ösp Guðmundsdóttur, býður upp á nýstárlega upplifun á veitingastaðnum Satt í tengslum við Hönnunarmars dagana 25.-30. mars.

Um er að ræða verkefni sem stöllurnar byrjuðu að þróa er þær stunduðu nám við Listaháskóla Íslands og hlutu Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir árið 2011.

Verkefnið nefnist Pantið áhrifin og er svokallaður upplifunarmatseðill en í stað þess að panta mat út frá innihaldi eða bragði er valið út frá því hvernig áhrif maturinn hefur á líkamann.

Til dæmis aðalrétt fyrir heilann og eftirrétt fyrir augun. Matseðillinn er unninn í samvinnu við matreiðslumenn og næringarfræðing.

„Þetta er þriggja rétta matseðill plús lystauki. Við erum mjög ánægðar með að verkefnið sé loksins að verða að veruleika,“ segir Auður Ösp, sem hlakkar til að sjá viðbrögð fólks við þessu.

„Líkaminn er vél sem þarf að hugsa vel um og það er mikilvægt að vera meðvitaður um hvaða áhrif matur hefur því hann hefur mikið að segja fyrir okkur.“

Hægt er að finna upplýsingar um matseðilinn og verkefnið á heimasíðu Satt og nánar um Hönnunarmars má finna hér. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×