Hin 18 ára gamla Helga María Vilhjálmsdóttir náði mjög athyglisverðum árangri í frumraun sinni á Vetrarólympíuleikum um helgina þegar hún náði 29. sæti í keppni í risasvigi á Ólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi.
„Hún stóð sig mjög vel þrátt fyrir að brautin hafi verið erfið. Hún fór vel í gegnum krefjandi braut,“ sagði Egill Ingi Jónsson annar þjálfara íslenska liðsins.
Það fylgir því oft mikið stress að keppa í fyrsta sinn á Ólympíuleikum en Helga María faldi það vel og náði öðrum besta árangri íslenskar konu í sinni fyrstu grein á Ólympíuleikum.
„Þetta er stærra en þær eru vanar og þær eru síðan innan um öll þessi stóru nöfn í þessum heimi. Það getur vissulega verið truflandi fyrir einbeitinguna að vera í slíkum andstæðum í fyrsta sinn en Helga réð mjög vel við þetta. Hún er hörku nagli,“ sagði Egill Ingi.
Það þarf að fara alla leið aftur til Ólympíuleikanna í Innsbruck árið 1976 til að finna íslenska konu sem byrjaði betur í sinni fyrstu grein á Vetrarólympíuleikunum.
Steinunn Sæmundsdóttir náði 16. sæti í svigi á leikunum í Innsbruck en hún var þá aðeins fimmtán ára gömul. Það er ennþá besti árangur íslenskrar konu á Vetrarólympíuleikum. Hér fyrir ofan eru bestu frumraunir íslenskra kvenna.
Helga María keppir aftur í dag og þá í sinni bestu grein, stórsvigi, ásamt Erlu Ásgeirsdóttur.
