Undanúrslitaleikir Powerade-bikars karla fara báðir fram í kvöld. Grindavík og Þór úr Þorlákshöfn mætast í Röstinni í Grindavík og Tindastóll tekur á móti ÍR í Síkinu á Sauðárkróki. Báðir leikir hefjast klukkan 19.15. Tindastóll og Þór geta bæði stigið sögulegt skref með því að tryggja sér sæti í bikarúrslitaleiknum.
Lærisveinar Bárðar Eyþórssonar í 1. deildarliði Tindastóls hafa unnið alla 15 leiki sína í deild og bikar á tímabilinu og komist þeir í bikarúrslitaleikinn verða þeir fyrsta liðið utan úrvalsdeildar til að spila bikarúrslitaleik. Ellefu lið utan úrvalsdeildar hafa komist svona langt frá því að úrvalsdeildin var stofnuð 1978, þar af tvö á síðustu tuttugu árum, KFÍ í fyrra (13 stiga tap fyrir Keflavík) og Breiðablik 2005.
Mótherjar þeirra úr ÍR eiga aftur á móti möguleika á því að komast í Höllina án þess að mæta liði úr úrvalsdeild en lærisveinar Örvars Þórs Kristjánssonar í ÍR hafa slegið út Breiðablik (1. deild), Þór Akureyri (1. deild) og goðsagnarlið Keflavíkur á leið sinni í undanúrslitin.
Lærisveinar Benedikts Guðmundssonar í Þór úr Þorlákshöfn geta komist í fyrsta bikarúrslitaleikinn í sögu félagsins með sigri í Grindavík í kvöld en þórsliðið er þegar búið að ná sínum besta árangri í bikarnum. Benedikt fór á sínum tíma með Fjölni í fyrsta sinn í Höllina. Mótherjar þeirra úr Grindavík hafa verið mikið bikarlið undanfarin ár enda hafa Grindvíkingar spilað þrjá af síðustu fjórum bikarúrslitaleikjum.
Körfubolti