„Í mati sínu lagði dómnefndin til grundvallar stórhug og framsæknar fjárfestingar hans í siglfirsku samfélagi sem tengjast fjárfestingarstefnu um sameiginleg verðmæti og samfélagslega ábyrgð til góðs fyrir íslenskt samfélag, þekkingu og menningu. Róbert fjárfestir bæði í innviðum siglfirsks samfélags samhliða einkafjárfestingum sínum – og styðja þær fjárfestingar vel við hvor aðra. Það er fjárfestingarstefna sem kennd hefur verið við sameiginleg verðmæti í stjórnun,“ segir í tilkynningunni.
Markmið hans sé að Siglufjörður verði með þá breidd í atvinnulífi, menntun, þekkingu og bæjarlífi sem geri kaupstaðinn eftirsóknarverðari fyrir aðra til að hefja þar starfsemi sem krefst þekkingar og menntunar – og dragi þannig til sín menntaða einstaklinga í auknum mæli.
„Hann hefur fjárfest í líftækni; byggir nýja líftækniverksmiðju, auk þess sem hann hefur keypt gömlu SR-mjöls verksmiðjurnar á Siglufirði undir þá starfsemi. Hann opnar nýtt hótel á komandi sumri við smábátahöfnina. Hann rekur þegar tvo veitingastaði við hafnarbakkann í gömlum húsum sem hann gerði upp af myndarskap. Þá hefur hann lagt fé í byggingu nýs golfvallar og skíðasvæði bæjarins. Auk þess að snyrta til í kringum smábátahöfnina og gert þar svæði, sem áður var moldarsvað, að blakvelli og minigolfvelli.“
Þetta er í 27 sinn sem Frjáls verslun útnefnir mann ársins í atvinnulífinu og eru þetta elstu viðskiptaverðlaun á Íslandi. Tilgangur verðlaunanna er sagður að vekja athygli á því sem vel er gert í atvinnulífi á Íslandi og hvetja með þeim hætti til aukins framtaks í viðskiptum og athafnasemi á meðal landsmanna.
Kristján Már Unnarsson, fréttamaður Stöðvar 2, tók hús á Róberti í þættinum „Um land allt“ síðastliðið vor. Innslög úr þáttunum má sjá hér að ofan.