Viðskipti erlent

Mercedes Benz eykur hagnað um 29%

Finnur Thorlacius skrifar
Mercedes Benz S-Class Coupe.
Mercedes Benz S-Class Coupe.
Einkar vel gengur þessa dagana hjá Daimler, eiganda bílaframleiðandans Mercedes Benz en fyrirtækið greindi frá 29% hagnaðaraukningu á þriðja ársfjórðungi þessa árs miðað við sama ársfjórðung í fyrra. Hagnaður Daimler á fjórðungnum, þ.e. frá júlí til september, nam 247 milljörðum króna.

Sala Mercedes Benz bíla hefur gengið afar vel á árinu og sækir Benz að BMW og Audi í fjölda seldra bíla. Sem dæmi seldi Mercedes Benz 163 þúsund bíla í september á meðan BMW seldi 168 þúsund og Audi 160 þúsund. Var þetta söluhæsti mánuður Benz frá upphafi.

Mercedes Benz mun þó ekki ná hinum tveimur framleiðendunum á þessu ári í sölu og er sem stendur 124 þúsund bílum á eftir BMW, sem er söluhæst þeirra þriggja. Í fyrra seldi Benz 1,46 milljón bíla, Audi 1,58 og BMW 1,66.

Það eru ekki bara fólksbílar sem Daimler hagnast vel á því sala stærri atvinnubíla, vörubíla, flutningabíla og fólksflutningabíla er einnig í miklum blóma og kemur nær 40% hagnaðarins þaðan. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×