Lífið

Bartónar sungu með Damien Rice

Tinni Sveinsson skrifar
Damien Rice réði Bartóna með leynd til að koma tónleikagestum á óvart.
Damien Rice réði Bartóna með leynd til að koma tónleikagestum á óvart.
Írski tónlistarmaðurinn Damien Rice fór fögrum orðum um íslenska vini sína og samstarfsmenn á tónleikum sem hann hélt í hljóðverinu Sundlauginni í Mosfellsbæ á mánudaginn.

Söngvarinn flutti þar lög af nýrri plötu sinni, My Favorite Faded Fantasy, sem var unnin að miklu leyti á Íslandi. Í salnum voru erlendir blaðamenn og fleiri. Platan var formlega tilkynnt fyrr um daginn en hún kemur út þann 3. nóvember næstkomandi.

Hún er sú fyrsta sem Rice sendir frá sér í átta ár. Hann sendi síðast frá sér plötuna 9 árið 2006 en frumburður hans, 0 kom út árið 2002. Talsverð eftirvænting var því eftir að Damien myndi flytja efnið af nýju plötunni.

Tónleikagestir vissu síðan varla hvaðan á þá stóð veðrið þegar að lokalaginu Trusty and True kom en þá hófu meðlimir Bartóna, karlakórs Kaffibarsins, upp raust sína og sungu með fullum hálsi.

Damien réð þá með leynd til að blanda sér meðal gestanna og láta sem ekkert væri fyrr en að lokalaginu kom. Hann lét ekki einu sinni umboðsmann sinn vita af gjörningnum, sem sló vitanlega í gegn.

Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á titillag plötunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×