Bretland og Bosnía mætast í Copper Box Arena í London í kvöld í öðrum leik A-riðils undankeppni EM 2015 í körfubolta.
Sem kunnugt er bar Ísland sigurorð af Bretlandi, 83-70, í Laugardalshöllinni á sunnudaginn. Bretar þurfa því helst á sigri að halda ef þeir ætla að halda möguleikum sínum á að komast upp úr riðlinum á lífi.
Líklega myndi bosnískur sigur í kvöld henta íslenska liðinu best. Fyrirfram var Bosnía álitið sterkasta liðið í riðlinum og að baráttan um annað sætið stæði á milli Íslands og Bretlands.
Efstu liðin í öllum sjö undanriðlunum komast á EM, sem og sex af þeim sjö liðum sem enda í öðru sæti riðlanna.
Til að skera úr um hvaða lið í öðru sæti situr eftir eru úrslit liðanna sem lenda í öðru sæti gegn tveimur efstu liðunum í hverjum riðli reiknuð. Það lið sem er með slakasta árangurinn í þessum leikjum situr eftir.
Fimm af þessum sjö undanriðlum innihalda fjögur lið, en A-riðill (Bosnía, Ísland, Bretland) og G-riðill (Sviss, Rússland, Ítalía) innihalda þrjú lið. Öll úrslit Íslands í riðlinum telja því þegar árangur liðanna í öðru sæti verður gerður upp.
Ísland mætir Bosníu ytra á sunnudaginn í öðrum leik sínum í riðlinum. Þremur dögum seinna sækir Ísland Bretland heim og íslenska liðið lýkur svo leik 27. ágúst þegar það mætir Bosníu í Laugardalshöllinni.
Bretar og Bosníumenn mætast í kvöld

Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Bretland 83-70 | Martin og Haukur Helgi drógu vagninn
Ísland í góðri stöðu eftir sigur á Bretum.