Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú lokið rannsókn sinni á brunanum í Skeifunni 11 að kvöldi sunnudagsins 6. júlí. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að eldurinn hafi átt upptök sín við þvottagrindur sem stóðu við strauvélar í húsnæði efnalaugarinnar Fönn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá upplýsingadeild Lögreglunnar. Þar segir að sjálfsíkveikja hafi orðið í stafla af bómullarefni vegna hita og oxunar eftir þvott og við þurrkun. Jafnframt segir að hiti hafi orðið mikill í rýminu við íkveikjuna og að það hafi leitt til hraðrar útbreiðslu eldsins.
Að rannsókninni unnu sérfræðingar tæknideildar lögreglu auk annarra sérfræðinga, til dæmis frá Mannvirkjastofnun.
