Innlent

Öðruvísi stemning á HM

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stuðningsmenn Þýskalands og Séra Þórhallur Heimisson.
Stuðningsmenn Þýskalands og Séra Þórhallur Heimisson. Vísir/Getty
„Því miður hefur maður heyrt dæmi af mönnum sem hittast hvern laugardag, sitja yfir fótboltanum og drekka of mikið. Sem er afspyrnuslæmt fyrir fjölskylduna,“ segir séra Þórhallur Heimisson. Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu stendur yfir eins og væntanlega hefur ekki farið framhjá neinum.

Þórhallur ræddi áhrif knattspyrnuáhorfs á fjölskyldulífið í Reykjavík Síðdegis í gær. Sagði hann það vel þekkt vandamál um helgar þegar annar aðilinn, yfirleitt karlmaðurinn á heimilinu, vill horfa of mikið á boltann.

„Það er þetta með öfgarnar, ekki bara á HM, að ef annar aðilinn eyðileggur fjölskyldulífið með sjónvarpsglápi, hvort sem það er vegna fótbolta, formúlu eða golfi eða hvað það nú er, þá er því miður voðinn vís í sambandinu,“ segir Þórhallur og hefur heyrt margar konur kvarta yfir.

„Ef menn nota tækifærið og eru ekki bara að njóta þess horfa á boltann heldur blóta Bakkus í leiðinni óhóflega er alltaf hætta fyrir hendi líka.“

Þórhallur segir vandamálið almennt og sérstaklega um helgar. Ef annar aðilinn vill alltaf horfa á boltann og drekka mikinn bjór.

„Þú ferð ekki út með konu og börnum á meðan,“ segir Þórhallur. „Þegar að kvöldi kemur ertu kannski búinn að vera að drekka bjór allan daginn. Ert úrvinda, úrillur og leiðinlegur. Ekkert hægt að gera með fjölskyldunni.“

Þórhallur segir hins vegar öðruvísi stemmning vera yfir heimsmeistarakeppninni. Þar séu hlutirnir líkt og með Eurovision. Pör, sem allajafna horfi ekki á fótbolta, horfi jafnvel saman og skemmti sér vel. HM sé veisla sem snúist um meira en fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×