Sport

Tók metið af móður sinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórdís Eva á framtíðina fyrir sér.
Þórdís Eva á framtíðina fyrir sér.
Hin fjórtán ára Þórdís Eva Steinsdóttir bætti 31 árs gamalt Íslandsmet móður sinnar í 800 m hlaupi kvenna á Gautaborgarleikunum í Svíþjóð í gær.

Þórdís Eva hefur bætt fjölmörg aldursflokkamet í frjálsum síðustu árin og bætti enn í safnið í gær er hún kom í mark á 2:14,11 mínútum í greininni. Þar með bætti hún Íslandsmetið í flokki stúlkna fjórtán ára og yngri.

Þórdís bætti þar með einnig mótsmetið í greininni í sínum aldursflokki.

Súsanna Helgadóttir, móðir Þórdísar, átti gamla Íslandsmetið en það setti hún árið 1983 með tímanum 2:15,77 mínútur.

Rut Ólafsdóttir, FH, á enn eldra met í flokki fimmtán ára og yngri en hún setti það árið 1979 er hún hljóp á 2:06,70 mínútum.

Þórdís gerði sér einnig lítið fyrir og bætti Íslandsmet fullorðinna í 300 m hlaupi kvenna með því að hlaupa til sigurs í greininni á 43,50 sekúndum. Gamla metið átti Stefanía Valdimarsdóttir en það var 43,78 sekúndur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×