„Við vorum of ragir, nýtum ekki tækifærin sem við fáum og vinnum ekki nógu marga bolta í vörninni. Það er margt sem er hægt að tína til sem við gerðum ekki nógu vel,“ sagði svekktur landsliðsfyrirliði Guðjón Valur Sigurðsson eftir jafnteflið gegn Bosníu í kvöld.
Jafnteflið dugði Bosníu til að komast á HM þar sem það vann fyrri leikinn með einu marki á sínum heimavelli. Ísland nældi sér ekki í farseðilinn til Katar.
Guðjón valur var verðlaunaður fyrir leik þar sem hann er búinn að spila 300. landsleiki. Hann átti frábæran leik og var maðurinn á bak við magnaða endurkomu Íslands í síðari hálfleik. Hún dugði því miður ekki til.
„Við náum að rífa okkur upp í síðari hálfleik en springum svo á limminu í lokin. Þetta einvígi tapast á 120 mínútum. Það er ekki hægt að taka út eitthvað eitt. Það er samansafn margra þátta sem gerir það að verkum að við komumst ekki áfram.“
Á löngum landsliðsferli hefur Guðjón Valur upplifað hæðir og lægðir með landsliðinu.
„Þetta eru ein mestu vonbrigðin sem ég hef lent í með landsliðinu. Ég hef samt upplifað verri högg persónulega og í handboltanum. Þetta er súrt og slæmt.“
