Erlent

Herskyldu komið á í Úkraínu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Meðlimir þjóðvarðliðs Úkraínu.
Meðlimir þjóðvarðliðs Úkraínu. vísir/afp
Olexander Túrtsjínov, settur forseti Úkraínu, hefur komið á herskyldu í landinu að nýju.

Það gerði hann í kjölfar árásar vopnaðra sveita hliðhollar Rússum á skrifstofur saksóknara í borginni Dónetsk. Þá saka Úkraínumenn Rússa um að hertaka fjölda skrifstofubygginga í austurhluta landsins, en því hafa rússnesk yfirvöld neitað.

Um 40 þúsund rússneskir hermenn eru nú í viðbragðsstöðu skammt frá landamærunum og segir Túrtsjínov að þjóðvarðlið Úkraínu hafi ekki bolmagn til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu Rússa í austurhluta landsins.

Sérfræðingar segja að fjöldi úkraínskra hermanna sé um 130 þúsund sem stendur en sú tala geti hækkað upp í allt að eina milljón verði óskað eftir aðstoð varaliðs.

Viktor Janúkovítsj, fyrrverandi forseti Úkraínu sem var hrakinn frá völdum fyrr á þessu ári, afnam herskyldu í lok síðasta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×