Gríðarleg átök hafa verið á þinginu að undanförnu vegna þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra þess efnis að slíta beri umsvifalaust viðræðum við Evrópusambandið.
Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur nú lagt fram tillögu þess efnis að slíta viðræðunum við Evrópusambandið og hefur þeirri ákvörðun verið harðlega mótmælt við Austurvöll og hafa 49 þúsund manns skrifað undir á vefsíðunni thjod.is.
„Við erum með þingræði sem hefur ákveðið hlutverk og þá verðum við að vanda okkur þegar ákveðið er að taka þingið úr sambandi,“ sagði Gunnar Bragi en hann efast um að þær hugmyndir sem eru uppi í dag um þjóðaratkvæðagreiðslu séu réttar.
„Ég hef hinsvegar ekki útilokað t.d. eftir umfjöllun í utanríkismálanefnd að skoða tillögu Vinstri grænna, mér finnst hún mjög áhugaverð.“ Gunnar vildi samt sem áður meina að honum þætti eðlilegt að þingið kæmi að málinu og fái að ræða það.
„Mér finnst mjög sérstakt að strax við fyrstu umræðu um málið séu menn farnir að tala um hvernig eigi að ljúka málinu, það er rétt að ræða slíkt á öðrum tímapunkti en sá tími er einfaldlega ekki kominn því þingið á eftir að fjalla um málið,“ sagði Gunnar og ítrekaði að allar þær þrjár tillögur sem hafa komið fram í málinu verði ræddar ítarlega í utanríkismálanefnd og menn skuli ekki flýta sér í þeirri vinnu.
„Mér finnst þetta ágætar fréttir og í sjálfu sér eðlilegt að við förum í gegnum þetta mál hér í þinginu,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata, svari sínu til Gunnars Braga.
„Á endanum, áður en við tökum afdrífaríkar ákvarðanir, hlýtur það að vera þannig að ef þjóðin kallar svona sterklega eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þá verðum við að hlusta á, mér finnst það mjög mikilvægt,“ sagði Birgitta og sagði einnig að það væri mikilvægt uppá framtíðina að gera.
„Við megum ekki rjúfa þá miklu breytingar sem hér hafa orðið til hins góða í samfélaginu eftir hrun þar sem fólk hefur sýnt því miklu meiri áhuga á því að vera þátttakendur í ákvarðanatökum í sínu samfélagi.“
Birgitta segir að það sé mjög mikilvægt þegar um þingsályktun sé að ræða þá þýði ekki að skjóta henni til forseta Íslands og biðja hann um að skrifa ekki undir.
„Núna erum við að tala um mál sem er algjörlega samspil milli þings og þjóðar, það er enginn forseti þarna á milli til að varpa ábyrgðinni til.“