ÍR-ingar sýndu flotta baráttu í 95-85 sigri á Þór Þorlákshöfn í Dominos deild karla í kvöld. Þrátt fyrir að eiga ekki möguleika á sæti í úrslitakeppninni börðust Breiðhyltingar vel í leiknum og unnu flottan sigur.
Þór Þorlákshöfn átti enn möguleika á því að stela fimmta sætinu í Dominos deildinni með sigri en þurftu einnig að treysta á að KR sigraði Hauka. ÍR-ingar höfðu hinsvegar að litlu að keppa, vonir þeirra um sæti í úrslitakeppninni dóu út umferðinni áður þegar Breiðhyltingar töpuðu naumlega eftir tvíframlengdan leik í Keflavík.
Þrátt fyrir að vera ekki að keppa neinu voru það heimamenn sem byrjuðu leikinn betur og náðu 11-4 forskoti eftir aðeins nokkrar mínútur. Þetta virtist vekja gestina frá Þorlákshöfn því þeir tóku við sér eftir þetta og náðu forskoti sem þeir héldu út hálfleikinn. Mest fór munurinn í 8 stig undir lok fyrri hálfleiks og var staðan 47-39 í hálfleik fyrir Þór.
Í þriðja leikhluta voru það ÍR-ingar sem höfðu undirtökin og söxuðu þeir smátt og smátt á forskot Þórsara í leikhlutanum en aðeins munaði einu stigi á liðunum í lok þriðja leikhluta. Í fjórða leikhluta voru það ÍR-ingar sem voru aftur beittari, á lokamínútum leiksins keyrðu Breiðhyltingar einfaldlega yfir gestina og náðu 16-6 kafla á seinustu fimm mínútum leiksins.
Leiknum lauk með 10 stiga sigri ÍR-inga sem sýndu og sönnuðu eftir áramót að það býr hellingur í þessu unga liði. Slæm byrjun þeirra á tímabilinu kostaði þá hinsvegar á endanum sæti í úrslitakeppninni.
Matthías Orri Sigurðarson fór fyrir liði ÍR-inga með þrefalda tvennu með sautján stig, fjórtán stoðsendingar og tíu fráköst en Hjalti Friðiksson setti niður 21 stig. Í liði Þórsara var Mike Cook Jr. atkvæðamestur með 26 stig.
ÍR 95-85 Þór Þorlákshöfn
(22-25, 39-47, 67-68, 95-85)
ÍR: Hjalti Friðriksson 21, Sveinbjörn Claessen 19, Matthías Orri Sigurðarson 19/16 stoðsendingar/10 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 16, Nigel Moore 10/11 fráköst, Vilhjálmur Theodór Jónsson 10, Sæþór Elmar Kristjánsson 2.
Þór Þorlákshöfn: Mike Cook Jr. 26, Tómas Heiðar Tómasson 16, Emil Karel Einarsson 13, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 11/11 fráköst, Nemanja Sovic 10, Baldur Þór Ragnarsson 9.
Örvar: Grátlegt að missa af sæti í úrslitakeppninni„Ég er óendanlega stoltur af strákunum, við höfum verið frábærir eftir áramót," sagði Örvar Þór Kristjánsson, þjálfari ÍR, kampakátur að leik loknum.
„Það er eiginlega grátlegt fyrir okkur að hafa misst af sæti í úrslitakeppninni miðað við hvað við höfum spilað vel undanfarið. Við höfum verið á mikilli uppleið og ég get ekki lýst karakternum hjá strákunum."
„Það er auðvitað frábært að enda þetta svona á heimavelli en taflan lýgur ekki um stöðuna okkar. Við vorum of lengi í gang og liðin fyrir ofan okkur eiga þetta einfaldlega skilið. Núna er komið að okkur að setjast fyrir framan imbann að horfa á úrslitakeppnina,"
Þrátt fyrir að vera dottnir úr leik í baráttu um úrslitakeppnina var ekki erfitt að koma mönnum í gírinn fyrir kvöldið.
„Þessi leikur var upp á stoltið og fyrir klúbbinn, fyrir fólkið sem hefur stutt við bakið á okkur í vetur og við vildum klára þetta með sigri. Við vorum slakir í fyrri hálfleik en strákarnir voru ákveðnir að snúa taflinu við,"
ÍR-ingar áttu kaflaskiptan leik en náðu að stíga upp í seinni hálfleik og fór Matthías Orri Sigurðarson fyrir liði ÍR-inga.
„Matti er örugglega manna ánægðastur að við höfum unnið, hann er þannig karakter. Menn voru lengi í gang og við vissum að við þyrftum að spýta í lófana í seinni hálfleik. Þegar opnu skotin okkar fóru að detta vissi ég að við ættum góða möguleika," sagði Örvar að lokum.
Benedikt: Ekki gott veganesti í úrslitakeppnina„Við vorum einfaldlega ekki nógu góðir til að vinna leikinn hér í kvöld," sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, óánægður eftir leikinn.
„ÍR-ingar voru betri í kvöld, sérstaklega í seinni hálfleik. Þetta var afar kaflaskipt, við vorum betri í fyrri en þeir mun betri í seinni hálfleik sem þeir vinna með sautján stigum, það er ekki nógu gott,"
Leikurinn í kvöld var síðasti leikur liðsins fyrir úrslitakeppnina. Með sigri hefði Þór lyft sér upp í fimmta sæti og mætt Njarðvík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en ljóst er eftir tap kvöldsins að Grindavík er mótherji liðsins.
„Þetta er ekki gott veganesti í úrslitakeppnina og við þurfum að stíga upp og spila betur en hérna í kvöld þegar hún byrjar. Við fylgdumst ekkert með hinum leikjunum, við ætluðum að sjá um okkar og sjá svo hvað yrði."
„ÍR-ingar seldu sig dýrt í kvöld og við áttum í miklum vandræðum með þá. Þeir eru ekki með eiginlega stóra menn inn í teignum og við náðum ekki að nýta okkur það hvorki í teignum né í sóknarfráköstum. Leikurinn í kvöld var einvígis barátta, hvort við myndum ná að drepa þá inn í teig eða hvort þeir myndu drepa okkur utan teigsins og þeir höfðu vinninginn."
„Matthías Orri var flottur í kvöld, hann stýrði þessu vel fyrir þá. Við skulum hafa þetta stutt, það var mjög margt sem var að hjá okkur í kvöld og ég þyrfti sennilega tvær blaðsíður í að telja það upp," sagði Benedikt að lokum.
Matthías: Mjög kaflaskipt tímabil„Þetta var mjög kaflaskipt tímabil, tveir sigrar fyrir áramót og í kanaveseni en allt annað að sjá til liðsins núna," sagði Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður ÍR, eftir leikinn.
„Kanarnir voru ekki að smella inn í hópinn en eftir að Nigel kom erum við búnir að vera mjög flottir, ég held að við séum með þriðja besta árangurinn eftir áramót,"
Ótrúlegur viðsnúningur var á gengi ÍR liðsins eftir komu Nigel Moore og hafa þeir sýnt undanfarnar vikur að þeir eiga fullt erindi í flest lið deildarinnar.
„Vonandi getum við haldið í Nigel og getum þá reynt að byggja ofan á þessu til að gera betra áhlaup á næsta ári. Við höfum unnið meirihluta liðanna í deildinni og höfum sýnt að við getum unnið alla. Mér finnst við eiga skilið að fara í úrslitakeppnina en við grófum okkar eigin gröf í byrjun tímabilsins."
„En þetta er byrjun á ferli í von um nýja framtíð hjá ÍR. Við erum með ungt lið og vonandi getum við haldið kjarnanum áfram á næsta ári og reynt að gera betri atlögu að sæti í úrslitakeppninni," sagði Matthías.
Leiklýsing: ÍR - Þór
Leik lokið | 95-85: Flottur sigur hjá ÍR-ingum sem geta verið stoltir af seinustu tíu leikjum sínum á þessu móti.
Fjórði leikhluti | 89-83: Sveinbjörn með mikilvægan þrist og munurinn kominn upp í sjö stig þegar tæplega ein og hálf mínúta er eftir af leiknum. Þórsarar þurfa að herða varnarleikinn og að hitta úr sínum skotum ætli þeir sér að snúa taflinu við.
Fjórði leikhluti | 83-79: Góður kafli hjá heimamönnum. Þrjár mínútur eftir á klukkunni, ná Þórsarar að snúa taflinu við og stela fimmta sætinu?
Fjórði leikhluti | 75-75: Þórsarar náðu forskotinu aftur undir lok leikhlutans en heimamenn ekki lengi að jafna. Það verður háspenna fram á lokasekúndur leiksins.
Þriðja leikhluta lokið | 67-68: Þórsarar ná forskotinu aftur rétt fyrir lok leikhlutans.
Þriðji leikhluti | 65-62: Matthías með þrist langt fyrir utan línuna og heimamenn skyndilega komnir með forystuna. Benedikt er ekki lengi að biðja um leikhlé.
Þriðji leikhluti | 60-62: ÍR-ingar ætla ekkert að veita neinn afslátt hér í kvöld þrátt fyrir að tímabilinu þeirra sé lokið.
Þriðji leikhluti | 50-52: Byrjar vel hjá heimamönnum í seinni, Sveinbjörn Claessen og Hjalti Friðriksson setja niður sitt hvort skotið. Þeir eru hinsvegar komnir með tvær villur eftir aðeins tvær mínútur, einu fleiri en Þórsarar í öllum leiknum hingað til.
Öðrum leikhluta lokið | 39-47: Tómas Heiðar Tómasson setur niður tvö vítaskot og það eru síðustu stig fyrri hálfleiks. Þórsliðið hefur tekið tólf víti í fyrri hálfleik og hitt úr ellefu þeirra á meðan heimamenn hafa ekki komist á vítalínuna.
Annar leikhluti | 37-43: Örvar Þór Kristjánsson, þjálfari Breiðhyltinga tekur leikhlé. Þórsliðið hefur náð ágætis tökum á leiknum.
Annar leikhluti | 34-39: Átta stig í röð hjá Þórsliðinu. Heimamönnum gengur illa að ráða við Mike Cook JR en hann er kominn með fimmtán stig þegar annar leikhluti er hálfnaður.
Annar leikhluti | 29-29: Sveinbjörn Claessen jafnar metin þegar tvær mínútur eru liðnar af öðrum leikhluta og Benedikt Guðmundsson tekur leikhlé. Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður ÍR byrjar leikinn vel á öllum sviðum. Matthías er kominn með sex stig, sex stoðsendingar og þrjú fráköst eftir aðeins tólf mínútur.
Fyrsta leikhluta lokið | 22 - 25: Heimamenn fengu ágætt skotfæri til að jafna metin hér undir lok hálfleiksins en skotið hafnaði í hringnum.
Fyrsti leikhluti | 16-15: Hittni ÍR-inga að kólna, hittu úr fyrstu fimm skotum sínum innan teigsins en hafa klúðrað þremur skotum í röð.
Fyrsti leikhluti | 11-4: Fyrstu fjögur skot ÍR-inga eru fyrir utan þriggja stiga línuna. Hitta aðeins úr einu en hitta vel innan teigs þegar þeir byrja að skjóta þar.
Fyrir leik: Tíu mínútur í leik og liðin á fullu í upphitun. Áætla að það séu um 50 manns í stúkunni.
Fyrir leik: Fróðlegt verður að sjá hvernig heimamönnum tekst að berjast við Ragnar Nathanaelsson undir körfunni í kvöld.
Fyrir leik: Með hagstæðum úrslitum í kvöld gætu gestirnir náð að stela fimmta sætinu af Haukum. Haukar sitja í fimmta sæti fyrir leiki kvöldsins en þeir mæta KR-ingum í kvöld.
Fyrir leik: Upprisa ÍR-inga hélst í hendur með komu Nigel Moore frá Njarðvík. Liðið hafði unnið átta leiki af níu leikjum sínum með Moore innanborðs í deildinni þegar kom að tapinu gegn Keflavík í síðustu umferð.
Fyrir leik: Heimamenn geta þó ekki kvartað undan árangri á tímabilinu. Á síðasta tímabili mátti litlu muna að þeir féllu niður um deild en í ár börðust þeir um sæti í úrslitakeppninni ásamt því að komast í úrslit bikarsins.
Fyrir leik: Vonir ÍR-inga um sæti í úrslitakeppninni dóu endanlega á fimmtudaginn þegar Breiðhyltingarnir töpuðu 126-123 gegn Keflavík í tvíframlengdum leik.
Fyrir leik: Komiði sæl og blessuð. Hér verður leik ÍR og Þórs lýst.
Körfubolti