Körfubolti

NBA: Ekkert lát á sigurgöngum Spurs og Clippers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blake Griffin og Chris Paul.
Blake Griffin og Chris Paul. Vísir/AP
Los Angeles Clippers og San Antonio Spurs héldu sigurgöngum sínum áfram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, Miami Heat vann Houston þökk sé skotsýningu Ray Allen í lokin, Dallas vann Durant og félagar í OKC og Anthony Davis var með 40/20 leik í sigri Pelíkananna.

Blake Griffin var með 21 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar þegar Los Angeles Clippers vann 102-80 sigur á Cleveland Cavaliers en þetta var ellefti sigurleikur Clippers-liðsins í röð. Chris Paul gaf 15 stoðsendingar og skoraði 11 af 16 stgium sínum á síðustu sex mínútunum.

Clippers-liðið hefur ekki tapað síðan 21. febrúar og jafnaði með þessu metið yfir lengstu sigurgöngu tímabilsins en bæði San Antonio Spurs og Portland Trailblazers tókst að vinna ellefu leiki í röð fyrr á þessu tímabili.

Manu Ginobili skoraði 21 stig þegar San Antonio Spurs vann sinn tíunda leik í röð og varð ennfremur fyrsta liðið til þess að vinna 50 leiki á tímabilinu. Spurs vann 122-104 sigur á Utah Jazz en liðið hitti úr 62,8 prósent skota sinna í leiknum. Tony Parker var með 18 stig og Tim Duncan skoraði 16 stig.

Ray Allen skoraði 14 af 25 stigum sínum í fjórða leikhluta þegar Miami Heat vann 113-104 heimasigur á Houston Rockets. LeBron James og Dwyane Wade voru báðir með 24 stig í leiknum en þetta var aðeins annar sigur Miami-liðsins í síðustu sjö leikjum. James Harden skoraði 30 stig fyrir Houston og Dwight Howard var með 21 stig og 14 fráköst í þriðja tapi Houston í röð.

Anthony Davis var með 40 stig og 21 frákast þegar New Orleans Pelicans vann 121-120 sigur á Boston Celtics eftir framlengdan leik en þetta voru tvö persónuleg met hjá Davis sem er kominn í hóp bestu kraftframherja deildarinnar. Jeff Green skoraði 39 stig fyrir Boston en það dugði ekki til og liðið tapaði fjórða leik sínum í röð.

Stephen Curry var með 28 af 37 stigum sínum í seinni hálfleik þegar Golden State Warriors vann 113-112 sigur á Portland Trailblazers. Klay Thompson skoraði 27 stig og þar á meðal sigurkörfuna 11,1 sekúndum fyrir leikslok. Þetta var mikilvægur sigur fyrir Golden State sem er einum og hálfum leik á eftir Portland í baráttunnum um fimmta sætið í Vesturdeildinni.

Dallas Mavericks var búið að tapa sjö deildarleikjum í röð á móti Oklahoma City Thunder þegar liðið vann 109-86 sigur í leik liðanna í Oklahoma City í nótt. Shawn Marion skoraði 19 stig fyrir Dallas og Vince Carter var með 18 stig. Kevin Durant skoraði 30 stig og fór yfir 25 stig í 26. leiknum í röð en því hafði enginn náð síðan að Michael Jordan tókst það í 40 leikjum í röð tímabilið 1986 til 1987.

Úrslit í öllum leikjum NBA-deildarinnar í nótt:

Milwaukee Bucks - Charlotte Bobcats 92-101

Toronto Raptors - Phoenix Suns 113-121

Miami Heat - Houston Rockets 113-104

New Orleans Pelicans - Boston Celtics 121-120 (framlengt)

Minnesota Timberwolves - Sacramento Kings 104-102

Oklahoma City Thunder - Dallas Mavericks 86-109

San Antonio Spurs - Utah Jazz 122-104

Portland Trail Blazers - Golden State Warriors 112-113

Los Angeles Clippers - Cleveland Cavaliers 102-80

Staðan í NBA-deildinni:









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×