Einar Kristinn Kristgeirsson og Brynjar Jökull Guðmundsson komust báðir í mark í fyrri ferð svigkeppninnar í Sotsjí í dag.
Einar Kristinn var fyrri til af Íslendingunum og kom í mark á 54,04 sekúndum og er 7,34 sekúndum á eftir efsta manni.
Einar skíðaði mjög öruggt niður brekkuna og hefði getað farið mun hraðar en vildi augljóslega frekar komast alla leið sem og tókst.
Brynjari Jökli urðu á smá mistök um miðja braut en hann komst engu að síður í mark á 56,85 sekúndum. Hann flýtti sér líka hægt eins og Einar Kristinn og eru þeir báðir neðarlega.
Mikil aföll urðu í fyrri ferðinni og náðu tugir keppenda ekki að klára. Brautin var nokkuð erfið viðureignar og því ágætlega gert hjá strákunum að komast alla leið.
Austurríkismaðurinn Mario Matt er í forystu eftir fyrri ferðina en hann kom í mark á 46,70 sekúndum. Andre Myhrer frá Svíþjóð náði næstbesta tímanum og Stefano Gross frá Ítalíu þeim þriðja besta.
Seinni ferðin hefst klukkan 16.10 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hér á Vísi.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-10-05T144457.831Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-10-05T144408.023Z-keflavik.png)