Í liðakeppninni fara karlarnir 3.200m en konurnar 2.400m. Þrír eru í karlaliðinu og fjórir í kvennaliðinu og skauta saman í hóp.
Tvö lið eru í brautinni á sama tíma og eru liðin ræst á sama tíma en á sitt hvorum staðnum í hringnum, með hálfan hring á milli liða.
Karlaliðið, skipað þeim Jan Blokhuijsen, Sven Kramer og Koen Verweij, kom í mark á tímanum 3:40,85 mínútum og var þremur sekúndum fljótari en japanska liðið sem fékk silfur. Pólverjar hlutu bronsverðlaun.
Kvennaliðið, skipað þeim Marit Leenstra, Jorian Ter Mors, Lottu van Beek og Ireen Wust kom í mark á nýju Ólympíumeti, 2:58,05 mínútum.
Pólland fékk silfur en pólska liðið var sjö sekúndum lengur að fara hringina en meistarar Hollands. Heimamenn frá Rússlandi fengu brons.
Þetta voru síðustu tvær greinarnar í skautahlaupi á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí. Alls voru veitt 36 verðlaun í skautahlaupi á leikunum og hirtu Hollendingar 23 þeirra.
Holland fékk átta gull, sjö silfur og átta brons. Ekki amaleg uppskera það.
Hér má sjá myndband af sigurferð hollenska karlaliðsins.
