Það kom fram í fréttum í dag að Einar Árni Jóhannsson myndi ekki halda áfram sem þjálfari körfuboltaliðs Njarðvíkur eftir tímabilið. Hann var spurður hvort hann vildi gefa upp einhverjar ástæður lægju á bakvið
„Það eru eðlilega einhverjar ástæður á bakvið svona ákvarðanir. Það er margt af því á persónulegum nótum," sagði þjálfarinn.
Einar var ekki tilbúinn að láta eitthvað í ljós varðandi framtíð sína.
„Ég er búinn að eiga hér mjög skemmtilegan tíma og það var mitt mat að ég þyrfti að takast á við eitthvað annað næsta vetur. Ég er ekki að láta það þvælast eitthvað fyrir mér núna, ég set punktinn bara þar og einbeiti mér að því að vinna með mínum mönnum og koma okkur aftur á beinu brautina.
Við viljum fyrst og fremst koma okkur í betri gír fyrir úrslita keppnina og ætla ég að einbeita mér að því eitt, tvö og þrjú. Svo skoða ég framtíðina í kjölfarið á því.“
Í kjölfar stórtíðinda komast sögusagnir oftast á kreik og var Einar spurður hvort hann teldi að Teitur Örlygsson væri á leiðinni í heimahagana aftur.
„Við Njarðvíkingar erum forríkir, við eigum sem uppeldisfélag Teit, Friðrik Inga, Örvar og fullt af góðum mönnum sem hafa gert hörkugóða hluti í þjálfun. Ég verð bara að játa það að ég hlusta ekki mikið á Gróu á leiti, ég er að einbeita mér að því að klára veturinn með liðinu og að gera það á sterkum nótum. Ég hef engar áhyggjur af framtíðinni í Njarðvík."
Körfubolti