Sport

Óðinn Björn kastar nú kúlunni fyrir Ármann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Óðinn Björn ásamt Frey Ólafssyni, formanni frjálsíþróttadeildar Ármanns.
Óðinn Björn ásamt Frey Ólafssyni, formanni frjálsíþróttadeildar Ármanns. Mynd/Aðsend
Kúluvarparinn Óðinn Björn Þorsteinsson, Ólympíufari, er hættur að keppa fyrir FH og genginn í raðir Ármanns.

Óðinn hefur verið fremsti kúluvarpari landsins um nokkurt skeið og keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í London 2012.

Hann hefur æft undanfarið undir stjórn Guðmundar Hólmars Jónssonar, þjálfara hjá Ármanni, og ákvað svo á dögunum að taka skrefið og ganga í raðir félagsins.

Auk þess að æfa undir stjórn Guðmundar Hólmars hefur hann einnig fengið góð ráð frá Hreini Halldórssyni en hann æfði með Strandamanninum sterka á dögunum.

Óðinn keppir í fyrsta skipti fyrir Ármann um helgina þegar bikarkeppni FRÍ innanhúss fer fram í Laugardalshöll.

Um Páskana fer Óðinn svo í æfingabúðir til Texas í Bandaríkjunum en þar býr frændi hans Óskar Jakobsson, Ólympíufari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×