Viðskipti erlent

Facebook tíu ára í dag

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Zuckerberg árið 2010.
Zuckerberg árið 2010. vísir/getty
Facebook fagnar tíu ára afmæli í dag. Meira en 1,2 milljarðar notenda eru virkir á þessum vinsælasta samfélagsmiðli heims, sem byrjaði sem lítið gæluverkefni Marks Zuckerberg, stofnanda fyrirtækisins, þegar hann var nemandi við Harvard-háskóla.

Til að byrja með var Facebook aðeins aðgengilegt nemendum við Harvard en fljótlega fengu aðrir háskólar einnig aðgang. Í september árið 2006 var vefurinn svo opnaður öllum sem náð höfðu 13 ára aldri.

Velgengni Facebook hefur gert Zuckerberg að einum ríkasta manni Bandaríkjanna, og í morgun setti hann sjálfur inn stöðuuppfærslu þar sem hann fjallar um afmælið.

„Ég man þegar ég og félagar mínir fengum okkur pizzu skömmu eftir að Facebook fór í loftið,“ skrifar Zuckerberg. „Ég sagði þeim að ég væri spenntur fyrir því að tengja saman skólafélaga okkar en einhvern daginn þyrftum við að tengja saman heiminn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×