Körfubolti

NBA: Nash snéri aftur en Lakers tapaði sjöunda leiknum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ricky Rubio fer hér framhjá Steve Nash í nótt.
Ricky Rubio fer hér framhjá Steve Nash í nótt. Mynd/AP
Los Angeles Lakers tapaði enn einum leiknum í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, Chicago Bulls endaði fimm leikja sigurgöngu Phoenix Suns, Indiana Pacers vann hörkuleik á móti Atlanta og Charlotte Bobcast endaði flotta útileikjaferð á sigri á Golden State Warriors.

Kevin Love var með 31 stig og 17 fráköst þegar Minnesota Timberwolves vann 109-99 sigur á Los Angeles Lakers en Lakers-liðið tapaði þarna sjöunda leiknum í röð. Kevin Martin skoraði 14 af 32 stigum sínum á fyrstu tíu mínútunum.

Steve Nash (7 stig og 5 stoðsendingar á 25 mínútum) spilaði sinn fyrsta leik síðan 10. nóvember en það dugði ekki Lakers-liðinu. Jodie Meeks og Jordan Hill meiddust báðir snemma í leiknum og þeir Pau Gasol og Kobe Bryant verða líklega báðir frá keppni fram yfir Stjörnuleikinn.

Carlos Boozer var með 19 stig og 12 fráköst þegar Chicago Bulls vann 101-92 sigur á Phoenix Suns og endaði fimm leikja sigurgöngu Suns-liðsins. Jimmy Butler og D.J. Augustin voru báðir með 18 stig og Joakim Noah var með 14 stig og 14 fráköst í fyrsta leik eftir brottekstur og stóra sekt á móti Sacramento Kings. Goran Dragic var stigahæstur hjá Phoenix með 24 stig.

David West skoraði 22 stig og Paul George var með 18 stig þegar Indiana Pacers vann 89-85 sigur á Atlanta Hawks í hörkuleik. Engum byrjunarliðsliðsmanni hjá Atlanta tókst að komast í tíu stig í leiknum.

Al Jefferson skoraði 30 stig og tók 13 fráköst þegar Charlotte Bobcats liðið endaði flotta útileikjaferð með 91-75 sigri á Golden State Warriors.Gerald Henderson skoraði 17 stig fyrir Bobcatsliðið sem vann 3 af 4 leikjum í ferðinni. Stephen Curry var með 17 stig og 11 stoðsendingar fyrir Golden State.

Úrslit úr leikjum næturinnar í NBA-deildinni:

Atlanta Hawks - Indiana Pacers 85-89

Minnesota Timberwolves - Los Angeles Lakers 109-99

Phoenix Suns - Chicago Bulls 92-101

Golden State Warriors - Charlotte Bobcats 75-91









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×