Handbolti

Aron: Ég verð klár í næsta leik

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
Aron sækir hér að Borge Lund.
Aron sækir hér að Borge Lund. mynd/daníel
Íslenska landsliðið vann sigurinn glæsilega gegn Noregi nánast án Arons Pálmarssonar. Hann meiddist snemma í leiknum og gat ekki snúið aftur.

"Ég snéri mig á ökkla. Þetta er smávægileg tognun en ég verð klár í næsta leik," sagði Aron eftir leikinn. Hann gerði nokkrar tilraunir til þess að snúa aftur en það gekk ekki.

"Það var of sárt. Vont að lenda og bremsa sig niður. Svo var liðið að spila frábærlega þannig að þjálfarinn hefði eflaust ekkert skipt mér inn á," sagði Aron léttur og hló við. "Ég fæ núna tvo daga til þess að gera mig kláran í næsta leik og ég verð tilbúinn."

Mikil vonbrigði fyrir Aron að hefja mótið á þennan hátt. Hann hefur verið tæpur vegna hnémeiðsla og meiðist nú á ökkla.

"Það er búið að tala um þetta helvítis hné á mér í marga mánuði og að ég myndi ekki ná þessu móti. Svo er ég orðinn góður en þá stíg ég ofan á einhvern Norðmann og misstíg mig. Það var frekar svekkjandi.

"Ég var með fýlusvip eiginlega allan leikinn út af þessu en auðvitað gleðst ég mikið yfir úrslitunum. Þetta er gríðarlega mikilvægur sigur og fram undan er annar úrslitaleikur gegn Ungverjum. Ef við vinnum hann erum við komnir í frábæra stöðu. Þetta lyftir líka sjálfstraustinu. Það er allt gott við að vinna fyrsta leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×