Handbolti

Öruggt hjá Frökkum og Svíum á EM í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Frakkland og Svíþjóð unnu örugga sigra í fyrstu leikjum sínum á EM í handbolta í Danmörku í kvöld en fyrr í dag höfðu Serbar og Króatar unnið sína leiki. Nú hafa öll liðin á Evrópumótinu spilað einn leik.

Frakkar unnu sjö marka sigur á Rússum, 35-28, eftir að hafa verið með fimm marka forskot í hálfleik, 19-14. Frakkar eru efstir í riðlinum en Serbar eru í 2. sætinu eftir eins marks sigur á Póllandi, 20-19, fyrr í dag.

Alix Nyokas skoraði níu mörk fyrir Frakka í kvöld og Nikola Karabatic skoraði úr öllum sex skotum sínum. Dimitri Kovalev skoraði mest fyrir Rússa eða sex mörk.

Svíar unnu sjö marka sigur á Svartfjallalandi, 28-21,  eftir að hafa verið með fimm marka forskot í hálfleik, 18-13. Króatar eru samt á toppnum í riðlinum eftir 11 marka sigur á Hvít-Rússum fyrr í dag.

Kim Ekdahl du Rietz var markahæstur hjá Svíum með sjö mörk en Mattias Zachrisson skoraði fimm mörk. Vasko Ševaljević skoraði fimm mörk fyrir Svartfellinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×