Sport

Kolbeinn Höður mætir Ólympíumeistara

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kolbeinn Höður og Jóhann Björn í 60  metra hlaupinu um liðna helgi.
Kolbeinn Höður og Jóhann Björn í 60 metra hlaupinu um liðna helgi. vísir/Vilhelm
Mark Lewis-Francis, meðlimur í bresku 4 x100 m boðhlaupssveitinni sem vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004, er á leið til landsins.

Lewis-Francis mun keppa í 60 metra hlaupi á Reykjavik International Games á sunnudaginn kemur. Besti tími Englendingsins, sem verður 32 ára á árinu, í 60 metra hlaupi er 6,51 sekúnda frá árinu 2001. Besti tími hans frá síðasta ári er 6,75 sekúndur.

Lewis-Francis vann til silfurverðlauna í 100 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í Barcelona sumarið 2010. Þá var hann í bronssveit Breta í 4x100 metra hlaupi á heimsmeistaramótinu í Helsinki 2005 og Osaka í Japan árið 2007.

Mark Lewis-Francis fagnar sigri í 50 metra hlaupi á móti í Glasgow árið 2011.Nordicphotos/AFP
Þá vann kappinn til silfurverðlauna í 60 metra hlaupi innanhúss í Madríd árið 2005. Hann þurfti hins vegar að láta verðlaunin af hendi eftir að kannabis mældist í blóðhrfu hans. Breska ólympíunefndin viðurkenndi síðar að kannabis hefði ekki verið neytt til að bæta árangur og honum veitt keppnisleyfi að nýju.

Kolbeinn Höður Gunnarsson, spretthlauparinn efnilegi úr UFA, kom fyrstur í mark á Meistaramóti 15-22 ára í Laugardalnum um liðna helgi. Kolbeinn hljóp á tímanum 7,03 sekúndur og fast á hæla hans kom Jóhann Björn Sigurbjörnsson úr UMSS á 7,05 sekúndum. Þeir félagar verða báðir 19 ára á árinu og munu fá mikla samkeppni frá Lewis-Francis um helgina.

Undanrásir í 60 metra hlaupinu fara fram klukkan 13:15. Úrslitahlaupið fer svo fram rúmri klukkustund síðar eða klukkan 14:25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×